32015R1589

Council Regulation (EU) 2015/1589 of 13 July 2015 laying down detailed rules for the application of Article 108 of the Treaty on the Functioning of the European Union

Verði gerð tekin upp í EES-samninginn birtist hún hér á íslensku eftir birtingu í EES-viðbæti
  • Tillaga sem gæti verið EES-tæk

  • Gerð í skoðun hjá EES-EFTA ríkjunum

  • Drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar í skoðun

  • Ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar samþykkt en hefur ekki öðlast gildi

  • Tekin upp í EES-samninginn og í gildi

  • Tekin upp í EES-samninginn en ekki lengur í gildi

Staða og svið tillögu/gerðar

Staða tillögu/gerðar Drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar í skoðun hjá ESB og EFTA-ríkjunum innan EES
Svið (EES-samningur, bókun) 26 um valdsvið og störf eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar

Almennar upplýsingar

Útdráttur

Í júlí 2013 tók gildi innan Evrópusambandsins reglugerð ráðsins (ESB) nr. 734/2013 um breytingar á reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999 um ítarlegar reglur um beitingu 93. gr. ESB-sáttmálans, sem fjallar um málsmeðferð á sviði ríkisaðstoðar. Reglugerðirnar voru sameinaðar með „kerfisbindingu“ (e. codification) í reglugerð (ESB) 2015/1589 frá 13. júlí 2015 um ítarlegar reglur um beitingu 108. gr. sáttmálans um starfhætti Evrópusambandsins. Fyrirhuguð upptaka gerðarinnar, sem gengur undir nafninu málsmeðferðarreglugerðin, í EES-samninginn hefur í för með sér að breytingar verði gerðar á bókun 3 við samning EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls (SED), aðallega á heimildum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) varðandi upplýsingaöflun og samstarf við innlenda dómstóla.

Nánari efnisumfjöllun

Með reglugerð ráðsins (ESB) nr. 734/2013 um breytingu á reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999 (reglugerðirnar hafa nú verið sameinaðar með kerfisbindingu) var að því stefnt að nútímavæða og auka skilvirkni eftirlits með ríkisaðstoð. Í breytingunni frá 2013 voru valdheimildir framkvæmdastjórnar ESB endurskoðaðar. Evrópusambandið hefur einkavaldheimildir (e. exclusive competence) þegar kemur að eftirliti með ríkisaðstoð í skilningi 107. gr. SUSE, sbr. b-lið 1. mgr 3. gr. SUSE. Innan EFTA-stoðarinnar hefur Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, valdheimildir á þessu sviði í gegnum samning EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dómstól (SED) og bókun 3 með honum. Hlutverk ESA er þannig hliðstætt hlutverki framkvæmdastjórnarinnar að því er varðar eftirlit með framkvæmd ríkisaðstoðarreglna EES-samningsins. Ákvæði 61. gr. EES-samningsins er hliðstætt ákvæði 107. gr. samningsins um starfshætti Evrópusambandsins (SUSE).
Þau nýmæli sem leiða af upptöku reglugerðar ráðsins (ESB) 2015/1589 í EES-samninginn og samsvarandi breytingum á bókun 3 við samning EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dómstól (SED) eru þrenns konar:

- Athuganir innan tiltekinnar atvinnugreinar
Aðalnýjungarnar sem felast í endurskoðun á málsmeðferðarreglugerðinni eru heimildir ESA til að afla upplýsinga (e. market information tools). Í heimildunum felst að ESA getur kallað eftir upplýsingum frá öðrum en stjórnvöldum viðkomandi EFTA-ríkis, eftir að svokölluð formleg rannsókn er opnuð vegna ríkisaðstoðarmáls, þ.e. að frumrannsókn lokinni. Nánar tiltekið er um að ræða markaðsupplýsingar frá öðrum EFTA-ríkjum og frá fyrirtækjum eða samtökum fyrirtækja á yfirráðasvæði EFTA-ríkjanna. Heimildirnar taka einnig til upplýsinga frá meintum þiggjanda ríkisaðstoðar en í því tilviki einungis í samráði við innlend stjórnvöld. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að á ESA hvílir rík þagnarskylda að því er varðar viðskiptamálefni fyrirtækja.
Með upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn er gert ráð fyrir að ESA geti, án þess að opna formlega rannsókn en þegar réttmætur grunur leikur á um að ríkisaðstoð í tilteknum atvinnugreinum kunni að hamla eða raska samkeppni á innri markaðnum, framkvæmt athuganir innan tiltekinnar atvinnugreinar (e. sector inquiries) í fleiri en einu EFTA-ríki. Í því skyni er stofnuninni heimilt að kalla eftir upplýsingum frá fyrirtækjum eða samtökum fyrirtækja í EFTA-ríkjunum. Markmið þessara heimilda er að aðilar sem hafa með höndum eftirlit með ríkisaðstoð (ESA og framkvæmdastjórn ESB) geti nálgast upplýsingar af tvennu tagi. Annars vegar það sem nefndar eru „þverlægar upplýsingar“ (e. horizontal information) til að meta hvort gögn sem aflað hefur verið veki upp álitamál í tilteknum geirum eða í tengslum við tilteknar tegundir ríkisaðstoðar (form aðstoðar, e. aid instrument) í fleiri en einu ríki. Hins vegar upplýsingar sem varpað geta ljósi á framkvæmd og venjur í viðskiptum í tilteknum geirum, til þess að unnt sé að útbúa leiðbeinandi reglur sem endurspegla raunverulegar markaðsaðstæður. Þessum heimildum verður þó einungis beitt þegar ljóst er að viðaminni ráðstafanir á borð við sérfræðiúttektir muni ekki ná sama marki.
Eftirlitsstofnun EFTA hefur til þessa haft heimildir til að fara fram á upplýsingar frá fyrirtækjum í EFTA-ríkjunum, skv. 6. gr. SED (í meginmáli), en hér er um að ræða nánar útfærðar heimildir í bókun 3 við SED. Því er um að ræða rýmkun á núverandi heimildum ESA í bókun 3 við SED, til að kalla eftir upplýsingum. Þær heimildir hafa takmarkast við að afla upplýsinga hjá stjórnvöldum í viðkomandi ríki en þó er, eins og að framan greinir, í meginmáli SED að finna ákvæði þess efnis að ESA geti við skyldustörf sín „farið fram á að fá allar nauðsynlegar upplýsingar frá ríkisstjórnum og þar til bærum yfirvöldum EFTA-ríkjanna og frá fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja.“
Til samanburðar er í 2. mgr. 21. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 að finna ákvæði sem kveður á um að þeim sem um er beðinn sé skylt að veita ESA nauðsynlegar upplýsingar, að því er varðar samkeppnismál, en hliðstætt ákvæði var áður í 41. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.

- Sektarheimildir
Málsmeðferðarreglugerðin felur í sér að eftirlitsaðila (ESA í tilviki EFTA-ríkjanna) sé unnt að krefjast svokallaðra markaðsupplýsinga frá fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja, við ítarlega (formlega) rannsókn á umfangsmiklum málum, í þeim tilvikum þegar áður fengnar upplýsingar sem borist hafa fyrir tilstilli stjórnvalda eru ekki fullnægjandi. Í því sambandi er eftirlitsaðilunum heimilað að beita sektum eða févítum (dagsektum) til að tryggja að orðið sé við beiðnum um upplýsingar.
Viðurlög (sektir) koma til álita þegar ákvörðun eða beiðni er svarað með röngum eða ófullnægjandi hætti, af ásetningi eða vítaverðu gáleysi, en þvingunarúrræði (févíti) þegar ekki eru veittar fullnægjandi og réttar upplýsingar innan tilskilins tíma, fyrir hvern virkan dag sem farið er yfir frest sem gefinn er.
Viðurlög og þvingunarúrræði koma ekki til greina vegna ófullnægjandi upplýsinga stjórnvalda, með vísan til svokallaðrar meginreglu um „samstarf af heilindum“ (e. principle of sincere cooperation, d. princippet om loyalt samarbejde), sem byggir á 3. gr. EES-samningsins. Í 3. gr. EES-samningsins er kveðið á um að samningsaðilar skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við skuldbindingar sem af samningnum leiðir. Gagnkvæm skylda EES-stofnana og EFTA-ríkjanna til að starfa saman, með það fyrir að augum að vinna að markmiðum sem leiða af EES-samningnum, byggir á greininni. Sömuleiðis geta sektir og févíti ekki verið lögð á einstaklinga utan rekstrar.
Í 24. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 er kveðið á um að ESA og EFTA-dómstólnum sé heimilt að leggja sektir og févíti á fyrirtæki og samtök fyrirtækja vegna brota á ákvæðum EES-samningsins um samkeppnismál. Hliðstætt ákvæði var áður í 44. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993. Í málsmeðferðarreglugerðinni er hins vegar álagning sekta og févíta bundin við upplýsingaskyldu fyrirtækja og samtaka fyrirtækja og því ekki um sambærilegar sektarheimildir að ræða.

- Samstarf við innlenda dómstóla
Að því er varðar samstarf við dómstóla gerir gerðin ráð fyrir því að ESA geti komið að skriflegum athugasemdum í dómsmáli sem rekið er fyrir dómstólum og varðar hugsanlega ríkisaðstoð. Gerðin kveður á um að slíku áliti skuli komið á framfæri í samræmi við réttarfarsreglur og framkvæmd viðkomandi ríkis og tekið skuli tillit til réttinda málsaðila og sjálfstæðis dómstóla. Jafnframt geti ESA, með leyfi dómara, komið að athugasemdum munnlega. Þá geti dómari óskað eftir upplýsingum og svörum við spurningum frá ESA vegna máls sem rekið er fyrir dómstólum og kemur sú heimild til viðbótar við heimildir til að óska eftir áliti EFTA-dómstólsins. Í þessu sambandi skal nefnt að það hefur verið talið leiða af meginreglu EES-réttar um samstarf af heilindum, sbr. 3. gr. EES-samningsins, að innlendum dómstólum geti borið skylda til að stöðva tímabundið veitingu aðstoðar við tilteknar aðstæður, séu líkur til þess að hún sé ólögmæt, þ.e. andstæð ákvæðum og framkvæmd EES-samningsins.

Í formálsorðum reglugerðarinnar er vikið að því að samræming í beitingu ríkisaðstoðarreglna kalli á að komið sé á fyrirkomulagi fyrir samstarf dómstóla og eftirlitsaðila með ríkisaðstoð. Slík samvinna skipti máli fyrir alla dómstóla sem geti þurft að beita viðkomandi ákvæðum sáttmálans um starfshætti ESB (SUSE). Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur að geyma hliðstæð ákvæði. Sér í lagi skuli innlendir dómstólar hafa heimild til að kalla eftir upplýsingum eða áliti varðandi atriði þar sem reyni á beitingu ríkisaðstoðarreglna. Áfram segir að slíku áliti skuli komið á framfæri í samræmi við réttarfarsreglur og framkvæmd viðkomandi ríkis og tekið skuli tillit til réttinda málsaðila og sjálfstæðis dómstóla.

Reglugerð (EB) nr. 1/2003, sem mælir fyrir um framkvæmd samkeppnisreglna, kveður á um sambærilegar heimildir til samstarfs dómstóla og ESA á sviði samkeppnisréttar. Gerðin var tekin upp í bókun 21 við EES-samninginn og hliðstæður texti tekinn upp í bókun 4 við SED, þær bókanir fjalla um störf og valdsvið ESA á sviði samkeppni.

Staða innan stjórnsýslunnar

Stofnun hefur lokið yfirferð
Þörf á aðlögun í ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar Ekki þörf á aðlögun
Fagráðuneyti hefur lokið vinnu við upplýsingablað og samþykkir drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar
Sent til Alþingis
Utanríkisráðuneyti hefur veitt samþykki fyrir því að drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar séu send til ESB

Innleiðing

Innleiðing Lagasetning/lagabreyting
Tilgreinið hvaða lög eða reglugerð þarf að setja eða breyta Gert er ráð fyrir að leggja fram frumvarp til heildarlaga um meðferð ríkisaðstoðarmála, til þess að tryggja tilteknum ákvæðum gerðarinnar lagastoð.
Staða innleiðingarvinnu Innleiðing í vinnslu

Samráð

Samráð Nei

Áhrif

Áætlaður kostnaður hins opinbera Ekki vitað

Ábyrgðaraðilar

Ábyrgt ráðuneyti Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samþykktar gerðir birtar í Stjórnartíðindum ESB

CELEX-númer 32015R1589
Samþykktardagur hjá ESB
Samþykkt tilvísun í Stjórnartíðindi ESB OJ L 248, 24.9.2015, p. 9
Þennan dag skulu skilyrði uppfyllt í ESB

Vinnslustig (pipeline stage)

Samþykktardagur i ESB

Ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar

Sendingardagur EFTA á drögum að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar til framkvæmdastjórnarinnar