32018L0851

Directive (EU) 2018/851 of the European Parliament and of the Council of 30 May 2018 amending Directive 2008/98/EC on waste

  • Tillaga sem gæti verið EES-tæk

  • Gerð í skoðun hjá EES-EFTA ríkjunum

  • Drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar í skoðun

  • Ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar samþykkt en hefur ekki öðlast gildi

  • Tekin upp í EES-samninginn og í gildi

  • Tekin upp í EES-samninginn en ekki lengur í gildi

Staða og svið tillögu/gerðar

Staða tillögu/gerðar ESB gerð sem hefur verið tekin upp í EES-samninginn og er í gildi
Svið (EES-samningur, viðauki) 20 Umhverfismál, 20.05 Úrgangur
Ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar (JCD) 318/2021
Þennan dag skulu skilyrði uppfyllt á EES-svæðinu
Staðfestur gildistökudagur
Í gildi á EES-svæðinu

Almennar upplýsingar

Útdráttur

Tilskipunin er ein fjögurra tilskipana sem breyta sex eldri úrgangstilskipunum sem þegar eru í gildi. Því er um að ræða yfirgripsmikla endurskoðun á Evrópulöggjöfinni er varðar úrgang og er megintilgangurinn sá að innleiða hringrásarhagkerfi (e. circular economy) og slíta þannig tengslin á milli hagvaxtar og myndunar úrgangs. Með því verði Evrópa í fararbroddi í úrgangsmálum í heiminum. Lagt er upp með að gera framleiðslu og neyslu í álfunni sjálfbæra, að draga úr myndun úrgangs og að varðveita auðlindir með því að halda hráefni í hringrás. Í gerðinni er sérstök áhersla lögð á úrgangsforvarnir, framlengda framleiðendaábyrgð, heimilisúrgang og matarúrgang. Jafnframt er aukin áhersla lögð á gerð tölulegra upplýsinga um úrgangsmál, m.a. til að fylgjast með innleiðingu gerðarinnar.

Nánari efnisumfjöllun

Efni gerðarinnar – Helstu breytingar sem felast í gerðinni
Fóðurefni úr jurtaríkinu eru gerð undanskilin gildissviði tilskipunarinnar.

Eldri skilgreiningum þriggja hugtaka er breytt lítillega og skilgreiningum á sjö nýjum hugtökum er bætt við. Þar á meðal eru skilgreiningar á hugtökunum heimilisúrgangur (e. municipal waste), matarúrgangur (e. food waste) og kerfi sem byggja á framlengdri framleiðendaábyrgð (e. extended producer responsibility scheme).

Sú skylda er sett á aðildarríkin að nota efnahagsleg stjórntæki og aðrar ráðstafanir til að hvetja til þeirrar forgangsröðunar við meðhöndlun úrgangs sem kemur fram í tilskipuninni. Við tilskipunina bætist nýr viðauki, IVa, sem inniheldur 15 dæmi um slík efnahagsleg stjórntæki og ráðstafanir.

Skerpt er á ákvæðum um aukaafurðir og skyldu aðildarríkjanna til að tryggja að efni eða hlutir sem sannanlega uppfylla sett skilyrði (e. conditions) í tilskipuninni til að teljast aukaafurðir séu ekki álitin úrgangur. Skilyrðin sem aukaafurðir þurfa að uppfylla breytast ekki en með nýrri málsgrein er gert ráð fyrir að framkvæmdastjórn ESB geti sett samræmd viðmið (e. detailed criteria), með framkvæmdargerðum (e. implementing acts), fyrir tiltekin efni eða hluti. Jafnframt, í þeim tilfellum þegar framkvæmdastjórnin hefur ekki sett samræmd viðmið, er aðildarríkjunum gert heimilt að setja eigin viðmið fyrir tiltekin efni eða hluti. Þegar slíkt er gert ber aðildarríkjunum að tilkynna um viðmiðin til framkvæmdastjórnarinnar.

Breytingar eru gerðar á ákvæðum um lok úrgangsfasa og skylda aðildarríkjanna gerð skýrari um að tryggja að úrgangur sem hefur verið endurunninn eða endurnýttur hætti að vera úrgangur ef hann uppfyllir sett skilyrði (e. conditions) í tilskipuninni. Skilyrðunum sjálfum er ekki breytt að öðru leyti en að skerpt er lítillega á fyrsta skilyrðinu en skilyrðunum er gefið meira vægi því fellt er brott ákvæði um að sérstök viðmið (e. end-of-waste criteria) þurfi að liggja fyrir, sem byggi á skilyrðunum, til að mögulegt sé að úrgangur hætti að vera úrgangur. Eftir breytinguna standa því skilyrðin sjálfstæð en áfram er framkvæmdastjórninni veitt heimild til að setja sértæk viðmið, með framkvæmdargerðum, fyrir einstaka úrgangsflokka eftir því sem hún telur nauðsynlegt. Jafnframt verður aðildarríkjunum áfram heimilt að setja eigin sértæku viðmið fyrir þá úrgangsflokka sem framkvæmdastjórnin hefur ekki sett viðmið fyrir eða, ef engin sértæk viðmið hafa verið sett, að leggja mat á hvert tilvik fyrir sig. Nýmæli er að gerð er krafa um að sá sem notar í fyrsta sinn vöru úr úrgangi eða sá sem markaðssetur vöruna tryggi að varan uppfylli viðeigandi kröfur sem gilda almennt um vörur og efni sem sett eru á markað.

Framkvæmdastjórninni er veitt heimild til að setja framseldar gerðir (e. adopt delagated acts) til að gera viðbætur við skrá yfir úrgang (e. list of waste).

Ákvæðum um framlengda framleiðendaábyrgð er breytt. Inn kemur ný grein í 8 liðum kveður á um almennar lágmarkskröfur sem gerðar eru til kerfa sem byggja á framlengdri framleiðendaábyrgð. Kröfurnar snúa m.a. að því að skilgreina réttindi og skyldur allra þeirra sem að kerfinu koma, að setja kerfinu megindleg markmið um meðhöndlun úrgangs sem því ber að ná, að tryggja upplýsingasöfnun um þá vöruflokka sem eru í kerfinu, að tryggja jafnræði framleiðenda óháð staðsetningu eða stærð, að tryggja að úrgangshafar skili viðkomandi úrgangi inn í kerfið s.s. með fræðslu, hagrænum hvötum eða reglusetningu, að tryggja að kerfið sinni öllum en ekki einungis þeim landssvæðum eða þeim úrgangi sem gefa mestar tekjur, að tryggja fjárhagslega burði kerfisins og að framleiðendur í kerfinu greiði sannanlega fyrir söfnun, flutning og meðhöndlun sinna vara þegar þær eru orðnar að úrgangi, að tryggja að framleiðendur greiði ekki kostnað umfram raunkostnað við meðhöndlun, að tryggja gegnsæi kerfisins, að tryggja fullnægjandi eftirlit og eftirfylgni með kerfinu og að tryggja reglubundið samtal á milli þeirra aðila sem hafa snertifleti við kerfið. Þessar kröfur gilda hvort tveggja um ný kerfi sem byggja á framlengdri framleiðendaábyrgð og um slík kerfi sem þegar eru til staðar en aðildarríkjunum ber að tryggja að kerfi sem komið var á fót fyrir 4. júlí 2018 uppfylli kröfurnar eigi síðar en 5. janúar 2023. Það er viðurkennt að kerfi sem byggja á framlengdri framleiðendaábyrgð eru mikilvæg verkfæri við úrgangsstjórnun en þessum kröfum sem settar eru er ætlað að draga úr kostnaði við kerfin, auka skilvirkni þeirra og tryggja jafnfræði. Í tilskipuninni eru jafnframt rýmkaðar heimildir aðildarríkjanna til að innifela í slíkum kerfum ráðstafanir sem hvetja til hönnunar, framleiðslu og markaðssetningar á vörum sem framleiddar eru úr endurunnu efni og á vörum sem henta til endurnotkunar eða endurvinnslu, eftir að þær verða að úrgangi. Samkvæmt tilskipuninni ber framkvæmdastjórninni að koma á flæði upplýsinga á milli aðildarríkjanna og á milli þeirra sem starfa í kerfum sem byggja á framlengdri framleiðendaábyrgð um bestu starfsvenjur í kerfunum og til að tryggja samvinnu þvert á landamæri.

Ný grein um úrgangsforvarnir kemur í stað eldri greinar. Í greininni eru gerðar ítarlegar kröfur til aðildarríkjanna um að grípa til ráðstafana sem eru til þess fallnar að draga úr myndun úrgangs, s.s. með því að styðja við framleiðslu og notkun á vörum sem framleiddar eru með sjálfbærum hætti og vörum sem endast vel og henta til viðgerða, að hvetja til endurnotkunar á vörum og hvetja til uppsetningar á kerfum sem styðja við viðgerðir og annan undirbúning fyrir endurnotkun (e. preparation for re-use) –einkum á raf- og rafeindatækjum, textíl og húsgögnum, umbúðum og byggingarefni–, að draga úr myndun úrgangs frá iðnaði, námuvinnslu, framleiðslu og byggingar- og niðurrifsstarfsemi, að draga úr myndun matarúrgangs í allri virðiskeðju matvæla með það að markmið að draga úr matarsóun um 50% fyrir árið 2030, að greina og takast á við uppsprettur rusls á víðavangi (e. litter) og að stefna að því að stöðva flæði rusls í hafið. Fjalla skal um þessar ráðstafanir í stefnu stjórnvalda um úrgangsforvarnir og fjalla, eins og við á, um hvernig nýtt eru þau efnahagslegu stjórntæki sem tiltekin eru í viðauka IVa. Jafnframt skal í stefnu um úrgangsforvarnir vera sérstök stefna um forvarnir gegn matarsóun. Sú skylda er lögð á aðildarríkin að þau fylgist með og meti gagnsemi þeirra ráðstafana við úrgangsforvarnir þau grípa til og skulu þau nota til þess umhverfisvísa og markmið sem þau setji sér. Til að fylgjast með árangri er aðildarríkjunum gert að fylgjast með og meta umfang endurnotkunar (e. re-use) og skal það gert samkvæmt aðferðafræði sem framkvæmdastjórninni er gert að mæla fyrir um í sérstakri framkvæmdargerð, sem skal sett fyrir lok mars 2019. Jafnframt er aðildarríkjunum gert að mæla matarsóun og skal það gert samkvæmt aðferðafræði sem framkvæmdastjórninni er gert að mæla fyrir um í sérstakri framseldri gerð, sem skal sett fyrir lok mars 2019. Það telst vera úrgangsforvörn að minnka dreifingu á efnum sem eru skaðleg heilsu og umhverfi. Í tilskipuninni er ákvæði um að aðildarríkin stuðli að lækkun á innihaldi hættulegra efna í efnum og vörum og sjái til þess að vörubirgjar skrái upplýsingar um efni í þeim hlutum sem þeir setja á markað í sérstakan gagnagrunn sem Efnastofnun Evrópu er gert að koma á fót fyrir 5. janúar 2020.

Ný grein um endurnýtingu úrgangs kemur í stað eldri greinar, þar sem undirbúningi fyrir endurnotkun og endurvinnslu úrgangs er gert hærra undir höfði og styður greinin því betur við þá forgangsröðun sem er í gildi við meðhöndlun úrgangs. Orðalagi greinarinnar varðandi skyldu til sérstakrar söfnunar einstakra úrgangstegunda er jafnframt breytt og felldur brott fyrirvari um að sérstök söfnun eigi einungis við sé það tæknilega, umhverfislega og efnahagslega gerlegt. Því er skýrara en áður var að almenna reglan felst í sérstakri söfnun. Nú er hins vegar sérstaklega kveðið á um í hvaða undantekningatilfellum aðildarríkin hafi heimild til að víkja frá skyldunni um sérstaka söfnun. Jafnframt er kveðið um að ríkjunum beri að tilkynna sérstaklega til framkvæmdastjórnarinnar hvernig sérstakri söfnun á heimilisúrgangi og á lífrænum úrgangi er háttað. Einnig er aðildarríkjunum gert skylt að tryggja að úrgangur sem hafi verið safnað sérstaklega til undirbúnings fyrir endurnotkun eða til endurvinnslu endi ekki í brennslu.

Grein tilskipunarinnar um endurnotkun og endurvinnslu er breytt. Fyrst ber að nefna að yfirskrift greinarinnar felur nú í sér hugtakið undirbúning fyrir endurnotkun (e. preparing for re-use), í stað endurnotkunar. Ákvæðum greinarinnar er einnig breytt með þeim hætti að aðildarríkjunum er nú gert skylt að gera ráðstafanir til að stuðla að og hvetja til starfsemi sem felur í sér undirbúning fyrir endurnotkun. Jafnframt er felldur brott fyrirvari um að sérstök söfnun úrgangs til endurvinnslu eigi einungis við sé það tæknilega, umhverfislega og efnahagslega gerlegt. Því er skýrara en áður að almenna reglan felst í sérstakri söfnun. Sérstaklega er kveðið á um í hvaða undantekningatilfellum aðildarríkin hafi heimild til að víkja frá skyldunni um sérstaka söfnun. Kveðið er á um að fyrir 1. janúar 2025 skuli aðildarríkin koma á fót sérstakri söfnun textílúrgangs, til viðbótar við sérstaka söfnun á pappír, málmi, plasti og gleri, sem var skylda samkvæmt fyrri tilskipun. Jafnframt er gerð krafa um að ríkin geri ráðstafanir sem stuðli að valvísu niðurbroti (e. selective demolition) á byggingum til að stuðla að öruggri meðhöndlun hættulegra efna sem í byggingum finnast og tryggja flokkun á byggingar- og niðurrifsúrgangi, a.m.k. á viði, jarðefnum (steypu, múrsteinum, flísum, keramík og steini), málmi, gleri, plasti og gifsi. Í greininni eru sett ný markmið fyrir endurvinnslu heimilisúrgangs (undirbúningur fyrir endurnotkun er innifalinn) sem aðildarríkjunum ber að ná: að lágmarki 55% árið 2025, að lágmarki 60% árið 2030 og að lágmarki 65% árið 2035. Ríkjum þar sem endurvinnsla heimilisúrgangs var minni en 20% eða urðun heimilisúrgangs meiri en 60% árið 2013 er veitt svigrúm til að fresta gildistöku framangreindra markmiða um allt að 5 ár. Til að svo megi verða ber viðkomandi ríki að tilkynna um það til framkvæmdastjórnarinnar í síðasta lagi tveimur árum áður en ber að ná markmiði samkvæmt tilskipuninni og leggja um leið fram sérstaka áætlun um hvernig ríkið hyggist innleiða ráðstafanir til að ná markmiðunum. Sú áætlun skal vera í samræmi við ákvæði viðauka IVb við tilskipunina.

Í tilskipuninni eru tvær nýjar greinar þar sem kveðið er á um reglur sem aðildarríkjunum ber að fylgja við útreikninga á endurvinnsluhlutfalli heimilisúrgangs, ákvæði um hvernig ríkjunum beri að standa að söfnun gagna fyrir slíka útreikninga og ákvæði um eftirlit framkvæmdastjórnarinnar með því að aðildarríkin nái endurvinnslumarkmiðum fyrir heimilisúrgang. Aðildarríkjunum er gert að setja upp skilvirkt kerfi til að fylgjast með straumi heimilisúrgangs og nefndur sá möguleiki að nýta til þess rafrænt skráningarkerfi fyrir spilliefni, sem kveðið er á um í tilskipuninni. Lögð er sú skylda á framkvæmdastjórnina að setja frekari reglur um þá útreikninga og skýrslugjöf sem tilskipunin kveður á um, með sérstakri framkvæmdargerð. Skal það gert fyrir lok mars 2019. Fyrir þann tíma skal framkvæmdastjórnin jafnframt setja framselda gerð um tölfræðilega meðhöndlun úrgangs sem verður eftir við formeðhöndlun úrgangs fyrir endurvinnslu og ekki er endurunninn.

Ákvæðum um kostnað við meðhöndlun úrgangs er lítillega breytt og nú er skýrt að innifalið í þeim kostnaði er uppsetning og rekstur nauðsynlegra innviða.

Ákvæðum um spilliefni frá heimilum er breytt og innleidd skylda til að setja upp sérstaka söfnun á spilliefnum frá heimilum fyrir 1. janúar 2025. Fimm árum áður en sú skylda kemur til framkvæmdar skal framkvæmdastjórnin útbúa leiðbeiningar til aðildarríkjanna um hvernig þau geti uppfyllt ákvæðið.

Ný grein um lífrænan úrgang (e. bio-waste) kemur í stað eldri greinar þar sem aðildarríkjunum er nú gert að tryggja fyrir árslok 2023 að lífrænn úrgangur sé annað hvort aðskilinn og endurunninn á upprunastað eða að honum sé sérstaklega safnað þannig að hann blandist ekki öðrum úrgangi. Þó verður heimilt að safna með lífrænum úrgangi öðrum úrgangi sem hefur sambærilega eiginleika við lífrænt niðurbrot og myltingu og lífrænn úrgangur hefur. Aðildarríkjunum er enda gert skylt að grípa til ráðstafana sem hvetja til endurvinnslu lífræns úrgangs yfir í hágæða afurðir og styðja við notkun afurða úr lífrænum úrgangi. Aðildarríkjunum er einnig gert að hvetja til heimajarðgerðar.

Greinum um útgáfu leyfa og skráningu, sem varða þá rekstraraðila sem meðhöndla úrgang, er breytt og framkvæmdastjórninni nú gert skylt að setja framseldar gerðir sem mæla fyrir um tæknileg lágmarksskilyrði fyrir þá starfsemi þar sem úrgangur er meðhöndlaður, s.s. flokkaður eða endurunninn. Skal þetta gert þar sem þörf krefur til verndunar heilsu fólks og umhverfis.

Grein tilskipunarinnar um áætlanagerð stjórnvalda í málaflokknum er breytt m.a. þannig að við stefnumörkun stjórnvalda verði lögð enn meiri áhersla á að meta þau kerfi sem til staðar eru fyrir söfnun úrgangs, þ.m.t. sérstök söfnun úrgangstegunda, og hvort nauðsynlegt sé að koma á fót nýjum kerfum, ásamt því að tryggja að fram fari mat á nauðsynlegum fjárfestingum í málaflokknum. Jafnframt skuli í áætlun stjórnvalda fjalla um ráðstafanir til að koma í veg fyrir, og hreinsa upp, rusl á víðavangi og um magn og ráðstöfun heimilisúrgangs. Ef gefin er út ný áætlun stjórnvalda eða gerðar eru mikilvægar breytingar á þeim ber að tilkynna það framkvæmdastjórninni en með nýrri málsgrein er framkvæmdatstjórninni gert að leggja til form fyrir þá upplýsingagjöf með setningu framkvæmdargerðar.

Í gerðinni er ákvæðum um skráningar á spilliefnum breytt með þeim hætti að eftirlitsaðilar þurfa ekki lengur að óska eftir aðgangi að þessum skráningum, heldur skulu handhafar spilliefna skrá upplýsingar í rafrænt skráningarkerfi um spilliefnin sem falla til hjá þeim, sem þeir safna, flytja eða meðhöndla á annan hátt. Um leið er sett sú skylda á aðildarríkin að setja upp slíkt skráningarkerfi sem nær til alls viðkomandi ríkis. Framkvæmdastjórninni er veitt heimild til að setja lágmarksskilyrði fyrir slík skráningarkerfi, með framkvæmdargerð.

Ný grein um skýrslugjöf kemur í stað eldri greinar. Ekki er lengur skylda fyrir aðildarríkin að senda framkvæmdastjórninni skýrslur um innleiðingu gerðarinnar, eins og skylt hefur verið að gera á þriggja ára fresti. Á móti kemur að skýrslur yfir úrgangstölfræði eru gerðar ítarlegri og ætlar framkvæmdastjórnin að nýta þessar skýrslur ríkjanna til að hafa eftirlit með innleiðingu gerðarinnar. Er því ríkjunum nú gert að senda árlega skýrslu yfir hvernig gengur að ná þeim markmiðum sem gerðinn mælir fyrir um og nýmæli er að gerð er krafa um meiri sundurliðun á tölfræðinni en hingað til hefur verið gert, t.d. er nú gerð krafa um að halda sérstaklega utan um tölur yfir úrgang sem fer í undirbúning fyrir endurnotkun en hingað til hefur sá úrgangur verið talinn með úrgangi sem fer til endurvinnslu. Jafnframt er nýmæli að halda beri sérstaklega utan um tölur yfir endurnotkun og matarúrgang, ásamt því að gefa skýrslu um magn olíu sem sett er á markað og olíuúrgangs sem meðhöndlaður er. Gerð er sérstök krafa um að gæðaskýrslur fylgi tölfræðiskýrslum til framkvæmdastjórnarinnar. Fyrir lok mars 2019 ber framkvæmdastjórninni að setja framkvæmdargerðir til að mæla nánar fyrir um skýrslugjöfina.

Í tilskipuninni fær framkvæmdastjórnin veigamikið hlutverk við að koma á reglubundnum upplýsingaskiptum á milli aðildarríkjanna um innleiðingu gerðarinnar og eftirfylgni með ákvæðum hennar, s.s. varðandi samstarf á milli landa, nýsköpun við meðhöndlun úrgangs, viðmið fyrir aukaafurðir frá iðnaði og fyrir lok úrgangsfasa sem einstök ríki hafa sett, innleiðingu efnahagslegra stjórntækja sem tilskipunin kveður á um, kröfur sem gera á til kerfa sem byggja á framlengdri framleiðendaábyrgð, ráðstafanir sem ríkin gera til að draga úr myndun úrgangs, uppsetningu sérstakrar söfnunar og varðandi leiðir til að ná markmiðum sem tilskipunin kveður á um. Framkvæmdastjórninni er jafnframt gert að útbúa leiðbeiningar um skilgreiningar tilskipunarinnar á hugtökunum heimilisúrgangur (e. municipal waste) og fylling (e. backfilling). Jafnframt er framkvæmdastjórninni veitt heimild til að setja framseldar gerðir til breytinga á viðauka II við tilskipunina er varðar reglur um útreikninga á orkunýtni sorpbrennslustöðva og til breytinga á viðaukum IV og V til samræmis við framfarir í tækni og vísindum.

Viðauka II við tilskipun 2008/98/EB er breytt og bætt er við tveimur nýjum viðaukum, þ.e. viðaukum IVa og IVb.

Gildistaka gerðarinnar
Gerðin tók gildi 4. júlí 2018 og ber aðildarríkjunum að uppfylla ákvæði hennar eigi síðar en 5. júlí 2020.

Staða innan stjórnsýslunnar

Stofnun hefur lokið yfirferð
Þörf á aðlögun í ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar Ekki þörf á aðlögun
Fagráðuneyti hefur lokið vinnu við upplýsingablað og samþykkir drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar
Utanríkisráðuneyti hefur veitt samþykki fyrir því að drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar séu send til ESB
Sent til Alþingis

Innleiðing

Innleiðing Lagasetning/lagabreyting
Tilgreinið hvaða lög eða reglugerð þarf að setja eða breyta Lagastoð í lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Reglugerðarbreyting – Reglugerð nr. 737/2003, um meðhöndlun úrgangs
Breytingar á 3. gr. reglugerðarinnar: Bæta við nýjum skilgreiningum og breyta eldri skilgreiningum. (3. mgr. 1. gr. tilskp.)
-Við bætist nýr viðauki, III. viðauki, um dæmi um efnahagsleg stjórntæki og aðrar ráðstafanir til að hvetja til réttrar forgangsröðunar við meðhöndlun úrgangs. (viðauki IVa við tilskp.)
-Breyting á 13. gr. reglugerðarinnar: Við bætist ný mgr., sem verður 3. mgr., sem innleiðir ný markmið um undirbúning fyrir endurnotkun og endurvinnslu heimilisúrgangs. Ekki er talin þörf á að nýta heimild til að fresta gildistöku markmiðanna. (c-liður 12. mgr. 1. gr. tilskp)
-Breytingar á 9. gr. reglugerðarinnar: Uppfæra þarf lista í 2. mgr. yfir þau atriði sem ber að fjalla um í svæðisáætlun sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs. (21. mgr. 1. gr. tilskp.)
-Breyting á 6. gr. reglugerðarinnar: Innleiða þarf ákvæði um þau atriði sem fjalla ber um í stefnu ráðherra um úrgangsforvarnir, s.s. um sérstakar ráðstafanir gegn myndun úrgangs, um að tekið sé tillit til III. viðauka við reglugerðina og um að í stefnunni sé sett sérstök stefna um forvarnir gegn matarsóun. (22. mgr. 1. gr. tilskp.)

Reglugerðarbreyting – Reglugerð nr. 1040/2016, um skrá yfir úrgang og mat á hættulegum eiginleikum úrgangs
-Breytingar á IV. viðauka við reglugerðina: Uppfæra þarf skýringar í neðanmálsgreinum. (31. mgr. 1. gr. tilskp.)

Reglugerðarbreyting – Byggingarreglugerð, nr. 112/2012
-Breyting á 2.4. kafla og/eða 15.2. kafla reglugerðarinnar: Styrkja þarf tengsl á milli útgáfu byggingarleyfis til niðurrifs og meðhöndlunar þess úrgangs sem fellur til við niðurrifið. Þannig verði valvíst niðurrif (e. selective demolition) ekki gert að skyldu en styrkt verði framkvæmd þeirra ákvæða sem nú þegar eru til staðar í byggingarreglugerð varðandi niðurrif. (b-liður 12. mgr. 1. gr. tilskp.)
Staða innleiðingarvinnu Innleiðing ekki hafin

Samráð

Hvaða hagsmunaaðilar Samband íslenskra sveitarfélaga| Úrvinnslusjóður| Mannvirkjastofnun

Áhrif

Nánari útskýring á kostnaði, þ.á.m. á hvern hann fellur Vísað er til sérstaks mats á kostnaði við uppsetningu og rekstur á skráningarkerfi fyrir spilliefni (25. mgr. 1. gr. tilskp.), sem fylgir þessu eyðublaði. Samkvæmt matinu nemur stofnkostnaður 8 m.kr. og árlegur kostnaður eftir það 2,5 m.kr.
Áætlaður kostnaður hins opinbera Aukakostnaður

Ábyrgðaraðilar

Ábyrgt ráðuneyti Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
Ábyrg stofnun Umhverfisstofnun

Samþykktar gerðir birtar í Stjórnartíðindum ESB

CELEX-númer 32018L0851
Þennan dag skulu skilyrði uppfyllt í ESB
Samþykkt tilvísun í Stjórnartíðindi ESB OJ L 150, 14.6.2018, p. 109
Þennan dag skulu skilyrði uppfyllt í ESB

Vinnslustig (pipeline stage)

COM numer COM(2015) 595
Dagsetning tillögu ESB
Dagsetning tillögu
Samþykktardagur i ESB

Drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar

Stjórnskipulegum fyrirvara aflétt (Noregur)

Ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar

Sendingardagur EFTA á drögum að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar til framkvæmdastjórnarinnar
Staðfestur gildistökudagur
Tilvísun í EES-viðbæti EEA Supplement No 19, 29.2.2024, p. 59
Tilvísun í stjórnartíðindi ESB OJ L, 2024/522, 29.2.2024