32020R1070

Commission Implementing Regulation (EU) 2020/1070 of 20 July 2020 on specifying the characteristics of small-area wireless access points pursuant to Article 57 paragraph 2 of Directive (EU) 2018/1972 of the European Parliament and the Council establishing the European Electronic Communications Code


iceland-flag
Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/1070 frá 20. júlí 2020 um tilgreiningu einkenna þráðlausra aðgangsstaða sem þekja lítið svæði skv. 2. mgr. 57. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 um setningu evrópskra reglna um rafræn fjarskipti
  • Tillaga sem gæti verið EES-tæk

  • Gerð í skoðun hjá EES-EFTA ríkjunum

  • Drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar í skoðun

  • Ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar samþykkt en hefur ekki öðlast gildi

  • Tekin upp í EES-samninginn og í gildi

  • Tekin upp í EES-samninginn en ekki lengur í gildi

Staða og svið tillögu/gerðar

Staða tillögu/gerðar ESB gerð hefur ekki öðlast gildi þar sem beðið er afléttingar stjórnskipulegs fyrirvara
Svið (EES-samningur, viðauki) 11 Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið, 11.01 Fjarskiptaþjónusta
Ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar (JCD) 277/2021

Almennar upplýsingar

Útdráttur

Reglugerð 2020/1070 er hluti af nýju fjarskiptaregluverki ESB; undirgerð Kóðans svonefnda þ.e. tilskipunar (ESB) 2018/1972. Hún tekur til þráðlausra aðgangspunkta sem þekja lítið svæði eins og þeir eru skilgreindir í 23. tölul. 2. gr. og 57. gr. Kóðans. Slíkum smásendum mun fyrirsjáanlega fjölga með útbreiðslu nýrra háhraðaneta. Kóðinn gerir ráð fyrir að uppsetning þráðlausra aðgangspunkta sem þekja lítið svæði skuli undanþegin því að sótt sé um sérstök leyfi hverju sinni, en með framkvæmdareglugerðinni er kveðið á um tæknilega eiginleika sem uppfylltir skulu í þessu samhengi. Fyrirhugað er frumvarp til nýrra heildarlaga um fjarskipti til innleiðingar á nýju fjarskiptaregluverki ESB og er í 3. mgr. 41. gr. þess gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð þar sem tilgreindar skulu kröfur um eðlisfræðilega og tæknilega eiginleika sem þarf að uppfylla. Ekki er gert ráð fyrir að sérstakur kostnaður fylgi upptöku og innleiðingu þessarar tilteknu undirgerðar Kóðans í landsrétt.

Nánari efnisumfjöllun

Framkvæmdareglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/1070 tekur til þráðlausra smásenda eða þráðlausra aðgangspunkta sem þekja lítið svæði (e. small-area wireless access points eða SAWAP), eins og þeir eru skilgreindir í 23. tölul. 2. gr., sbr. 57. gr., tilskipunar (ESB) 2018/1972 um setningu evrópskra reglna um fjarskipti (e. European Electronic Communications Code Directive, EECC-tilskipunin eða Kóðinn). Líkt og móðurgerðin (Kóðinn), á framkvæmdareglugerðin að taka gildi þann 21. desember 2020 í aðildarríkjum ESB.
Þráðlaus aðgangspunktur sem þekur lítið svæði (e. small-area wireless access points eða SAWAP) er skilgreindur þannig í 23. tölul. 2. gr. Kóðans, sbr. 53. tölul. 5. gr. frumvarps til nýrra heildarlaga um fjarskipti (þskj. 1354 – 775. mál á 150. lögþ.) sem endurflutt verður á nýju þingi haustið 2020, óbreytt hvað þetta varðar: „Þráðlaus lágaflsbúnaður til netaðgangs sem er lítill að stærð og með lítið drægi, sem notar leyfisskylt tíðniróf eða tíðniróf sem ekki er leyfisskylt eða hvoru tveggja og sem nota má sem hluta af almennu fjarskiptaneti og má vera búinn einu eða fleiri loftnetum með lítil sjónræn áhrif og sem veitir notendum þráðlausan aðgang að fjarskiptanetum óháð undirliggjandi netuppbyggingu, hvort sem um er að ræða farsíma- eða fastlínu“.
Smásendum af þessu tagi mun fyrirsjáanlega fjölga hér á landi sem annars staðar með útbreiðslu nýrra háhraðaneta og þykja líkur til að þetta muni hafa jákvæð áhrif á notkun tíðnisviðsins og þróun þráðlausra samskipta. Kóðinn gerir ráð fyrir að uppsetning smásenda af þessu tagi skuli undanþegin því að sótt sé um sérstök leyfi hverju sinni, en með framkvæmdareglugerð (ESB) 2020/1070 er nánar kveðið á um tæknilega eiginleika (þ. á m. stærðar- og útlitstakmarkanir) sem uppfylltir skulu í þessu samhengi.
Í því skyni að stuðla að sátt meðal almennings um þráðlausa aðgangspunkta sem þekja lítið svæði (og fyrirséða fjölgun þeirra) er krafa gerð um að þeir hafi sem minnst sjónræn áhrif. Stærð skal takmörkuð og kröfur gerðar til hönnunar/útlits sendanna, svo og um að uppsetningu sé hagað þannig að þeir verði ekki eða lítt sýnilegir eða falli inn í umhverfi.
Tryggt skal að virkni/áhrif þessara smásenda séu ekki skaðleg heilsu fólks og í því samhengi vitnað til strangra viðmiða ESB um takmörk rafsegulsviðs sem almenningur má verða fyrir (EMF). Þá skal einnig uppfylla skilyrði staðals EN 62232:2017, en í honum eru m.a. settar fram reglur um þráðlausa smásenda sem framkvæmdareglugerðin tekur til (E0, E2 og E10). Þá skulu þráðlausir smásendar í skilningi framkvæmdareglugerðar (ESB) 2020/1070 uppfylla kröfur tilskipunar (ESB) 2014/53 um þráðlausan fjarskiptabúnað (e. Radio Equipment Directive, RED).
Með framkvæmdareglugerðinni er lagt til að hámarks stærð sýnilegs einstaks hluta smásendis skuli vera að hámarki 20 lítrar, eða 0,02 rúmmetrar. Það er talið vera nægjanlegt bæði vegna eiginleika þeirra og til að tryggja sem minnst sjónræn áhrif. Þá er tekið fram að vegna fagurfræðilegra sjónarmiða skuli takmarka uppsetningu senda af tegundinni E10 við stærri svæði, utan- eða innanhúss, þar sem lofthæð nær a.m.k. 4 metrum. Slíkir sendar eru líklegir til að vera 20 lítrar að stærð eða stærri. Hér má nefna staði eins og flugvelli, verslunarmiðstöðvar o.s.frv. Þá skal þyngd og lögun þessara smásenda ekki verða til þess að styrkja þurfi eða breyta burðarvirkjum þeirra staða sem þeir verða settir upp á.
Hin nýja framkvæmdareglugerð (ESB) 2020/1070 skal ekki hafa áhrif á rétt hvers ríkis til að ákvarða öryggi og nýtingarmöguleika eigna. Þar með talið er réttur eigenda til að ráða eignum sínum sjálfir. Á hinn bóginn gerir móðurgerðin (Kóðinn) ráð fyrir að opinber yfirvöld veiti aðgang að efnislegum grunnvirkjum sem þau hafa yfirráð yfir, sem henta tæknilega til að hýsa þráðlausa aðgangspunkta sem þekja lítið svæði eða sem eru nauðsynlegir til að tengja slíka aðgangspunkta/smásenda við grunnnet, þ.m.t. ljósastaurum, götuskiltum, umferðarljósum og stöðvum fyrir almenningssamgöngur. Vísast til 57. gr. Kóðans og 2. mgr. 41. gr. frumvarps til laga um fjarskipti (þskj. 1354 – 775. mál á 150. lögþ.) sem endurflutt verður á nýju þingi haustið 2020, óbreytt hvað þetta varðar. Framkvæmdareglugerðin skal heldur ekki takmarka rétt ríkja til að ákvarða hámark rafsegulsviðs (EMF) smásenda á tilteknum svæðum, en þó þannig að samræmist reglum ESB. Framkvæmdareglugerðin skal ekki takmarka rétt ríkja til að setja vægari reglur en hún mælir fyrir um í þeim tilgangi að auðvelda uppsetningu smásenda, auka þéttleika þráðlauss nets og minnka sjónræn áhrif sem sendarnir geta valdið. Þá kveður framkvæmdareglugerðin á um það að þeir rekstraraðilar sem sett hafa upp smásenda af því tagi sem reglugerðin tekur til skuli tilkynna viðeigandi yfirvöldum um uppsetninguna og staðsetningu þráðlausu aðgangspunktanna/smásendanna, hér á landi Póst- og fjarskiptastofnun.
Tekið er sérstaklega fram að framkvæmdareglugerðin taki ekki til þráðlausra smásenda sem hafa svokölluð active antenna system (AAS). Smásendar samanstanda gjarnan af nokkrum mismunandi einingum eins og sendi, loftneti, köplum og bakbúnaði. Í sumum tilfellum geta loftnet þessara senda verið uppsett fjarri öðrum einingum smásendanna en þau síðan tengd við þá með köplum. Einingar hefðbundins sendibúnaðar eru stundum sameinaðar í þeim tilgangi að hann geti nýtt tíðnisviðið betur og nákvæmar og þannig m.a. afkastað meiru. Með öðrum orðum eru einingarnar settar nær loftnetinu. Búnaður með þessum breytingum er kallaður active antenna system.
Ekki er gert ráð fyrir að sérstakur kostnaður fylgi upptöku og innleiðingu þessarar tilteknu undirgerðar Kóðans í landsrétt. Í gildandi fjarskiptalögum, nr. 81/2003, er ekki fjallað sérstaklega um þráðlausa smásenda eða aðgangspunkta sem þekja lítið svæði, undanþágu frá leyfisskyldu vegna uppsetningar slíkra (sjá þó 62. gr. laga nr. 81/2003) eða skyldu opinberra aðila til að heimila uppsetningu á grunnvirkjum sem þeir hafa yfir að ráða. Hins vegar er að finna ákvæði þar um, að fyrirmynd 57. gr. Kóðans, í frumvarpi til nýrra fjarskiptalaga sem lagt var fyrir 150. löggjafarþing (þskj. 1354 – 775. mál) og endurflutt verður á nýju þingi haustið 2020 (151. lögþ.), sjá. 41. gr. Ákvæðið verður óbreytt í nýju frumvarpi að öðru leyti en því að í stað þess að gera ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun verði falið að setja nánari reglur um þráðlausa aðgangspunkta sem þekja lítið svæði (smásenda) er nú gert ráð fyrir að það komi í hlut ráðherra. Lagastoð verður því að finna í nýjum lögum um fjarskipti, verði frumvarpið samþykkt; innleiðing fyrirsjáanlega með tilvísunaraðferð í nýrri reglugerð.

Staða innan stjórnsýslunnar

Stofnun hefur lokið yfirferð
Þörf á aðlögun í ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar Ekki þörf á aðlögun
Fagráðuneyti hefur lokið vinnu við upplýsingablað og samþykkir drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar
Utanríkisráðuneyti hefur veitt samþykki fyrir því að drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar séu send til ESB

Innleiðing

Innleiðing Lagasetning/lagabreyting
Tilgreinið hvaða lög eða reglugerð þarf að setja eða breyta Ekki er lagastoð í gildandi lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, en fyrirhuguð framlagning frumvarps til nýrra heildarlaga um fjarskipti (endurflutningur), sem gerir ráð fyrir að þessi gerð verði innleidd með tilvísunaraðferð í nýrri reglugerð.
Staða innleiðingarvinnu Innleiðing ekki hafin

Áhrif

Áætlaður kostnaður hins opinbera Innan fjárhagsáætlunar

Ábyrgðaraðilar

Ábyrgt ráðuneyti Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið
Ábyrg stofnun Fjarskiptastofa

Samþykktar gerðir birtar í Stjórnartíðindum ESB

CELEX-númer 32020R1070
Þennan dag skulu skilyrði uppfyllt í ESB
Samþykkt tilvísun í Stjórnartíðindi ESB OJ L 234, 21.7.2020, p. 11
Þennan dag skulu skilyrði uppfyllt í ESB

Vinnslustig (pipeline stage)

Dagsetning tillögu ESB
C/D numer D067535/02
Dagsetning tillögu
Samþykktardagur i ESB

Ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar

Sendingardagur EFTA á drögum að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar til framkvæmdastjórnarinnar
Tilvísun í EES-viðbæti EEA Supplement No 17, 22.2.2024, p. 98
Tilvísun í stjórnartíðindi ESB OJ L, 2024/475, 22.2.2024