32019L0904

Directive (EU) 2019/904 of the European Parliament and of the Council of 5 June 2019 on the reduction of the impact of certain plastic products on the environment

  • Tillaga sem gæti verið EES-tæk

  • Gerð í skoðun hjá EES-EFTA ríkjunum

  • Drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar í skoðun

  • Ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar samþykkt en hefur ekki öðlast gildi

  • Tekin upp í EES-samninginn og í gildi

  • Tekin upp í EES-samninginn en ekki lengur í gildi

Staða og svið tillögu/gerðar

Staða tillögu/gerðar ESB gerð sem hefur verið tekin upp í EES-samninginn og er í gildi
Svið (EES-samningur, viðauki) 02 Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun, 02.17 Umhverfisvernd
Ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar (JCD) 240/2021
Þennan dag skulu skilyrði uppfyllt á EES-svæðinu
Staðfestur gildistökudagur
Í gildi á EES-svæðinu

Almennar upplýsingar

Útdráttur

Tilskipunin er ætlað að koma í veg fyrir og draga úr umhverfisáhrifum af tilteknum plastvörum og áhrifum þeirra á heilsu fólks. Mælingar hafa sýnt að rusl á ströndum í Evrópu er að 80-85% plast og þar af eru einnota plastvörur 50% og hlutir tengdir veiðum 27%. Ákvæðum tilskipunarinnar er því fyrst og fremst beint að þeim plastvörum sem finnast helst á ströndum. Tilskipuninni er jafnframt ætlað að styðja við myndun hringrásarhagkerfis og efla úrgangsforvarnir með því að styðja við notkun sjálfbærra og endurnotanlegra vara, fremur en einnota vara.

Nánari efnisumfjöllun

Tilskipunin tekur til einnota vörutegunda úr plasti sem taldar eru upp í viðauka við hana, til allra vörutegunda sem framleiddar eru úr plasti sem gert er til að brotna niður fyrir tilstilli oxunar (e. oxo-degradable plastic) og til veiðarfæra sem innihalda plast.

Í tilskipuninni er að finna skilgreiningar á hugtökum sem þýðingu hafa fyrir efni hennar (3. gr. tilskp.). Þessi hugtök eru t.d. plast, einnota plastvörur, plast sem brotnar niður fyrir tilstilli oxunar (e. oxo-degradable plastic), veiðarfæri, veiðarfæraúrgangur, að setja á markað, að bjóða fram á markaði, framleiðandi og lífbrjótanlegt plast.

Meginefni tilskipunarinnar snýr að ráðstöfunum sem ætlað er að minnka umhverfisáhrif af plastvörum og er þeim skipt í sjö þætti: 1) minnkun á notkun tiltekinna vara, 2) markaðssetning tiltekinna vara gerð óheimil, 3) kröfur gerðar til hönnunar eða samsetningar tiltekinna vara, 4) kröfur gerðar um sérstakar merkingar á tilteknum vörum, 5) kröfur gerðar um að tilteknar vörur séu í kerfi sem byggir á framlengdri framleiðendaábyrgð (e. extended producer responsibility scheme), 6) sérstök söfnun til endurvinnslu á tilteknum vörum þegar notkun þeirra er lokið og þær eru orðnar að úrgangi og 7) ráðstafanir til að auka vitund neytenda um skaðsemi þess að fleygja rusli á víðavangi og um aðra kosti sem bjóðast í stað einnota plastvara. Hér á eftir verður nánar fjallað um hvern þessara sjö þátta en hver þeirra tekur til mismunandi tegunda af einnota plastvörum.

1) Minnkun á notkun tiltekinna vara (4. gr. tilskp.)
Aðildarríkjum Evrópusambandsins er gert að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að draga úr notkun einnota plastvara sem taldar eru upp í A-hluta viðauka við tilskipunina. Þessar vörur eru drykkjarmál (þ.m.t. lok) og ílát undir matvæli (með eða án loks) sem ætluð eru til neyslu strax á sölustað eða annarsstaðar, er jafnan neytt beint úr viðkomandi íláti og eru tilbúin til neyslu án frekari eldunar eða hitunar.

Umræddar ráðstafanir skulu skila mælanlegum og varanlegum árangri í að draga úr notkun þessara plastvara í viðkomandi ríki fyrir árið 2026, miðað við notkun þeirra árið 2022. Hvert aðildarríki skal fyrir 3. júlí 2021 upplýsa framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um þær ráðstafanir sem það hyggst grípa til í þessu sambandi. Hverju aðildarríki er jafnframt gert að fylgjast með magni umræddra plastvara sem sett er á markað og að upplýsa framkvæmdastjórnina um árangur gerðra ráðstafana.

2) Markaðssetning tiltekinna vara gerð óheimil (5. gr. tilskp.)
Aðildarríkin skulu gera markaðssetningu óheimila á einnota plastvörum sem taldar eru upp í B-hluta viðauka við tilskipunina og jafnframt á vörum sem framleiddar eru úr plasti sem brotnar niður fyrir tilstilli oxunar (e. oxo-degradable plastic). Plastvörurnar sem eru taldar upp í B-hluta viðaukans eru bómullarpinnar (að undanskildum þeim sem ætlaðir eru til lækninga og falla undir sérreglur þar um), hnífapör og matarprjónar, diskar, sogrör (að undanskildum þeim sem ætluð eru til lækninga og falla undir sérreglur þar um), drykkjarhrærur, blöðrupinnar ætlaðir almenningi, ílát úr frauðplasti undir matvæli sem ætluð eru til neyslu strax á sölustað eða annarsstaðar, er jafnan neytt beint úr viðkomandi íláti og eru tilbúin til neyslu án frekari eldunar eða hitunar, drykkjarílát úr frauðplasti (þ.m.t. lok) og drykkjarmál úr frauðplasti (þ.m.t. lok)

3) Kröfur gerðar til hönnunar eða samsetningar tiltekinna vara (6. gr. tilskp.)
Aðildarríkin skulu tryggja að einnota plastvörur sem taldar eru upp í C-hluta viðauka við tilskipunina og er lokað með tappa eða loki úr plasti megi aðeins setja á markað ef tappinn eða lokið eru áföst á meðan á tilætlaðri notkun varanna stendur. Þær vörur sem um ræðir eru drykkjarílát að rúmmáli allt að þremur lítrum, s.s. drykkjarflöskur og samsettar drykkjarvöruumbúðir. Útbúnir verða Evrópustaðlar fyrir þær umbúðir sem uppfylla eiga framangreinda kröfu.

Til viðbótar skal hvert aðildarríki tryggja að frá árinu 2025 verði einnota drykkjarflöskur úr pólýetýlentereþalati (PET) að rúmmáli allt að þremur lítrum (sbr. F-hluta viðauka við tilskipunina) gerðar að lágmarki 25% úr endurunnu plasti. Ennfremur skal frá árinu 2030 tryggja að allar einnota drykkjarflöskur að rúmmáli allt að þremur lítrum verði gerðar að lágmarki 30% úr endurunnu plasti. Fyrir 1. janúar 2022 skal framkvæmdastjórnin setja framkvæmdargerð (e. implementing act) sem mæli fyrir um reglur við útreikninga vegna framangreindra markmiða og ber aðildarríkjunum að upplýsa framkvæmdastjórnina árlega um árangur.

4) Kröfur gerðar um sérstakar merkingar á tilteknum vörum (7. gr. tilskp.)
Aðildarríkin skulu tryggja að sérhver einnota plastvara sem talin er upp í D-hluta viðauka við tilskipunina og sett er á markað beri áberandi, læsilega og óafmáanlega merkingu á umbúðum sem upplýsi neytanda um meðhöndlun vörunnar eftir notkun og um að hún innihaldi plast og hafi neikvæð áhrif berist hún í umhverfið. Þessar vörur eru tíðabindi, tíðatappar og stjakar fyrir tíðatappa, blautþurrkur til heimilis– og einkanota, drykkjarmál og tóbaksvörur með síu og stakar síur fyrir tóbaksvörur. Fyrir 3. júlí 2020 skal framkvæmdastjórnin setja framkvæmdargerð um samræmda forskrift að framangreindum merkingum.

5) Framlengd framleiðendaábyrgð á tilteknar vörur (8. gr. tilskp.)
Aðildarríkin skulu tryggja að einnota plastvörur sem taldar eru upp í E-hluta viðauka við tilskipunina og settar eru á markað séu í kerfi sem byggir á framlengdri framleiðendaábyrgð. Þannig fjármagni framleiðendur varanna m.a. fræðslu til almennings um ábyrgar neysluvenjur til að draga úr rusli á víðavangi og hreinsun á rusli á víðavangi. Þær plastvörur sem um ræðir eru ílát undir matvæli (með eða án loks) sem ætluð eru til neyslu strax á sölustað eða annarsstaðar, er jafnan neytt beint úr viðkomandi íláti og eru tilbúin til neyslu án frekari eldunar eða hitunar, umbúðir úr sveigjanlegu efni undir matvæli sem ætluð eru til neyslu beint úr viðkomandi umbúðum án frekari tilreiðslu, drykkjarílát að rúmmáli allt að þremur lítrum, drykkjarmál (þ.m.t. lok), burðarpokar úr plasti sem eru þynnri en 50 µm, blautþurrkur til heimilis– og einkanota, blöðrur til almenningsnota og tóbaksvörur með síu og stakar síur fyrir tóbaksvörur. Hverju ríki er gert að upplýsa framkvæmdastjórnina árlega um hversu miklu er safnað af síum af notuðum tóbaksvörum.

Jafnframt skulu veiðarfæri sem innihalda plast vera í kerfi sem byggir á framlengdri framleiðendaábyrgð og skulu aðildarríki sem liggja að sjó setja sér markmið um árlega lágmarkssöfnun á slíkum veiðarfærum til endurvinnslu. Í því skyni skulu aðildarríkin vakta hversu mikið af veiðarfærum sem innihalda plast er sett á markað og hversu miklu af slíkum úrgangi er safnað. Þessum upplýsingum ber að skila til framkvæmdastjórnarinnar. Í ábyrgð framleiðenda á veiðarfærum felst að fjármagna sérstaka söfnun veiðarfæra, flutning þeirra og meðhöndlun og fjármagna tiltekna fræðslu til notenda. Útbúnir verða Evrópustaðlar fyrir hönnun veiðarfæra sem styðja við endurnotkun þeirra og endurvinnslu.

6) Sérstök söfnun tiltekinna vara til endurvinnslu (9. gr. tilskp.)
Aðildarríkin skulu grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að sérstök söfnun fyrir endurvinnslu á einnota drykkjarflöskum úr plasti, að rúmmáli allt að þremur lítrum (sbr. F-hluta viðauka við tilskipunina) verði að lágmarki 77% á ári fyrir 2025 og að lágmarki 90% á ári fyrir 2029. Fyrir 3. júlí 2020 skal framkvæmdastjórnin setja framkvæmdargerð um útreikninga vegna framangreindra markmiða og aðildarríkin skulu árlega upplýsa framkvæmdastjórnina um árangur.

7) Ráðstafanir til að auka vitund neytenda (10. gr. tilskp.)
Aðildarríkin skulu grípa til ráðstafana til að fræða og upplýsa neytendur og hvetja til ábyrgrar neyslu til að draga úr rusli á víðavangi vegna þeirra plastvara sem tilskipunin tekur til. Jafnframt skulu ríkin grípa til sérstakra ráðstafana til að upplýsa neytendur um einnota plastvörur sem getið er í G-hluta viðauka við tilskipunina og notendur veiðarfæra sem innihalda plast. Þessar einnota vörur eru ílát undir matvæli (með eða án loks) sem ætluð eru til neyslu strax á sölustað eða annarsstaðar, er jafnan neytt beint úr viðkomandi íláti og eru tilbúin til neyslu án frekari eldunar eða hitunar, umbúðir úr sveigjanlegu efni undir matvæli sem ætluð eru til neyslu beint úr viðkomandi umbúðum án frekari tilreiðslu, drykkjarílát að rúmmáli allt að þremur lítrum, drykkjarmál (þ.m.t. lok), tóbaksvörur með síu og stakar síur fyrir tóbaksvörur, blautþurrkur til heimilis– og einkanota, blöðrur til almenningsnota, burðarpokar úr plasti sem eru þynnri en 50 µm, tíðabindi, tíðatappar og stjakar fyrir tíðatappa. Skulu upplýsingarnar til neytenda lúta að möguleikum til notkunar á endurnotanlegum valkostum, réttri meðhöndlun þegar vörurnar eru orðnar að úrgangi, umhverfisáhrifum þess að skilja eftir rusl á víðavangi, einkum áhrifum þess á hafið, og áhrifum ófullnægjandi úrgangsmeðhöndlunar þessara vara á fráveitukerfi.

Þær ráðstafanir sem aðildarríkin grípa til til innleiðingar þessarar tilskipunar skulu vera í samræmi við, og hluti af, stefnumörkun viðkomandi ríkis á grundvelli haftilskipunarinnar (2008/56/EB), vatnatilskipunarinnar (2000/60/EB) og rammatilskipunar um úrgang (2008/98/EB), auk áætlana um móttöku úrgangs og farmleifa frá skipum. (11. gr. tilskp.)

Fyrir 3. júlí 2020 ber framkvæmdastjórninni að birta leiðbeiningar sem m.a. innihalda dæmi um þær einnota plastvörur sem tilskipunin tekur til. (12. gr. tilskp.)

Í tilskipuninni er grein um viðurlög (14. gr. tilskp.) og er þar kveðið á um að aðildarríkin skuli setja reglur um viðurlög við brotum gegn þeim ráðstöfunum sem ríkin grípa til til innleiðingar á tilskipuninni. Ríkjunum ber að upplýsa framkvæmdastjórnina um slíkar reglur sem settar eru, í síðasta lagi 3. júlí 2021.

Gildistaka gerðarinnar
Tilskipunin tók gildi 2. júlí 2019 og ber aðildarríkjunum að uppfylla ákvæði hennar eigi síðar en 3. júlí 2021. Þó ber ekki að uppfylla ákvæði um kröfur sem gerðar eru til hönnunar eða samsetningar tiltekinna plastvara (6. gr. tilskp.) fyrr en 3. júlí 2024. Ákvæði um framlengda framleiðendaábyrgð (8. gr. tilskp.) ber að uppfylla að hluta til fyrir 5. janúar 2023 og að öllu leyti fyrir 31. desember 2024. Framkvæmdastjórninni er gert að leggja mat á tilskipunina og þann árangur sem hún skilar fyrir 3. júlí 2027.

Staða innan stjórnsýslunnar

Stofnun hefur lokið yfirferð
Þörf á aðlögun í ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar Ekki þörf á aðlögun
Fagráðuneyti hefur lokið vinnu við upplýsingablað og samþykkir drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar
Utanríkisráðuneyti hefur veitt samþykki fyrir því að drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar séu send til ESB
Sent til Alþingis

Innleiðing

Innleiðing Lagasetning/lagabreyting
Tilgreinið hvaða lög eða reglugerð þarf að setja eða breyta Lagabreyting – Lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir
Lagt er til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á lögunum:
-Breyting á 2. gr. laganna: Gildissvið laganna verði þannig að ákvæði þeirra taki til starfsemi sem felur í sér framleiðslu, innflutning, áfyllingu og sölu á vörum.
-Breytingar á 3. gr. laganna: Við bætast skilgreiningar á hugtökum sem lykilþýðingu hafa fyrir ný ákvæði laganna er varða plastvörur. Aðrar skilgreiningar verði innleiddar með reglugerð. (3. gr. tilskp.)
-Breyting á 5. gr. laganna: Við bætist heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð um plastvörur.
-Breytingar á X. kafla A laganna:
--Við bætist ákvæði sem geri markaðssetningu tiltekinna plastvara óheimila. Jafnframt verði taldar upp þær plastvörur ákvæðið tekur til. (5. gr. tilskp. og B-hluti viðauka)
--Við bætast ný ákvæði sem kveði á um lagastoð fyrir reglugerðarákvæðum
i. um sérstakar ráðstafanir sem ætlaðar eru til að minnka notkun tiltekinna einnota plastvara, s.s. töluleg markmið, ráðstafanir sem tryggi að endurnotanlegir valkostir séu í boði fyrir neytendur til jafns við einnota valkosti eða álagningu gjalds á vörur, (4. gr. tilskp.)
ii. um hönnun og samsetningu tiltekinna einnota plastvara, (6. gr. tilskp.)
iii. um merkingar á tilteknum einnota plastvörum, (7. gr. tilskp.)
iv. um fræðslu og upplýsingagjöf til að auka vitund neytenda, jafnframt því sem hlutverk mismunandi aðila við fræðslu og upplýsingagjöf verði skýrð. (10. gr. tilskp.)
--Við bætast ný ákvæði sem kveði á um ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á tilteknum einnota plastvörum og á veiðarfærum sem innihalda plast, s.s. ábyrgð á fjármögnun fræðslu og upplýsingagjafar, fjármögnun á söfnun og meðhöndlun þegar vörurnar eru orðnar að úrgangi og fjármögnun á hreinsun rusls á víðavangi. Jafnframt verði kveðið á um hlutverk Úrvinnslusjóðs og ráðherra veitt heimild til að setja í reglugerð töluleg markmið um söfnun veiðarfæraúrgangs, sem inniheldur plast, til endurvinnslu. (8. gr. tilskp.)
-Breytingar á öðrum greinum laganna:
---Við bætast ný ákvæði um eftirlit með brotum gegn ákvæðum laganna um plastvörur, auk ákvæða um viðurlög við brotum.

Lagabreyting – Lög nr. 162/2002, um úrvinnslugjald
Lagt er til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á lögunum:
-Breyting á II. kafla laganna: Við bætist ákvæði sem kveði á um álagningu úrvinnslugjalds á tilteknar einnota plastvörur. (8. gr. tilskp.)
-Breytingar á IV. kafla laganna: Við bætast ákvæði sem kveði á um hlutverk Úrvinnslusjóðs við að uppfylla ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á tilteknum einnota plastvörum og veiðarfærum sem innihalda plast, s.s. varðandi fræðslu og upplýsingagjöf, söfnun og meðhöndlun úrgangs og hreinsun á rusli á víðavangi, og við að ná tölulegum markmiðum um söfnun veiðarfæraúrgangs sem inniheldur plast. (8. gr. tilskp.)

Lagabreyting – Lög nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs
Lagt er til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á lögunum:
-Breytingar á 1. og 2. mgr. 5. gr. laganna: Kveðið verði á um að stefna um meðhöndlun úrgangs og stefna um úrgangsforvarnir skuli, eftir atvikum, innihalda ráðstafanir sem gripið er til samkvæmt ákvæðum um plastvörur í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. (11. gr. tilskp.)
-Breyting á 6. gr. laganna: Kveðið verði á um að svæðisáætlanir sveitarstjórna um meðhöndlun úrgangs skuli, eftir atvikum, innihalda ráðstafanir sem gripið er til samkvæmt ákvæðum um plastvörur í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. (11. gr. tilskp.)

Reglugerðarsetning – Ný reglugerð
Lagt er til að ráðherra setji nýja reglugerð um plastvörur, með stoð í 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, að breyttu breytanda. Þessi reglugerð innihaldi til innleiðingar á tilskipuninni:
-Skilgreiningar á hugtökum sem nauðsynlegt er að innleiða í íslenskan rétt en sem ekki verða innleiddar með br. á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. (3. gr. tilskp.)
-Ákvæði um sérstakar ráðstafanir sem ætlaðar eru til að minnka notkun tiltekinna einnota plastvara. (4. gr. tilskp.)
-Ákvæði um hönnun og samsetningu tiltekinna einnota plastvara. (6. gr. tilskp.)
-Ákvæði um merkingar á tilteknum einnota plastvörum. (7. gr. tilskp.)
-Ákvæði um ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á tilteknum einnota plastvörum og á veiðarfærum sem innihalda plast. Jafnframt verði kveðið á um hlutverk Úrvinnslusjóðs og sett töluleg markmið fyrir söfnun veiðarfæraúrgangs, sem inniheldur plast, til endurvinnslu. (8. gr. tilskp.)
-Ákvæði um að ráðstafanir samkvæmt reglugerðinni skuli vera í samræmi við aðgerðaáætlun skv. 21. gr. laga nr. 36/2011, um stjórn vatnamála, við stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir, sbr. 5. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og við lög og reglur er varða matvæli. (11. gr. tilskp.)
-Ákvæði um fræðslu og aðra upplýsingagjöf til að auka vitund neytenda. (10. gr. tilskp.)
-Ákvæði um eftirlit og viðurlög við brotum gegn ákvæðum reglugerðarinnar. (14. gr. tilskp.)
-Viðauka þar sem taldar eru upp þær einnota plastvörur sem reglugerðin tekur til. (A-, C-, D-, E-, F- og G-hlutar viðauka við tilskp.)

Reglugerðarbreyting – Reglugerð nr. 609/1996, um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs
Lagastoð er í e-lið 43. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.
Lagt er til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á reglugerðinni:
-Breytingar á 8. gr. reglugerðarinnar: Við bætist ný málsgrein þar sem kveðið verði á um markmið um lágmarkssöfnun til endurvinnslu á einnota drykkjarflöskum úr plasti. (9. gr. tilskp.)
Staða innleiðingarvinnu Innleiðing ekki hafin

Áhrif

Nánari útskýring á kostnaði, þ.á.m. á hvern hann fellur Búast má við að innleiðingu tilskipunarinnar fylgi aukin verkefni Úrvinnslusjóðs, þar sem bætast munu við vöruflokkar sem bera úrvinnslugjald, og Umhverfisstofnunar, sem að líkindum verður falið eftirlit með plastvörum á markaði. Hins vegar er gert ráð fyrir að auknar tekjur komi til í formi úrvinnslugjalds og eftirlitsgjalds, sem standi undir auknum kostnaði. Áhrifin eru því óveruleg.
Áætlaður kostnaður hins opinbera Ekki vitað

Ábyrgðaraðilar

Ábyrgt ráðuneyti Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
Ábyrg stofnun Umhverfisstofnun

Samþykktar gerðir birtar í Stjórnartíðindum ESB

CELEX-númer 32019L0904
Þennan dag skulu skilyrði uppfyllt í ESB
Samþykkt tilvísun í Stjórnartíðindi ESB OJ L 155, 12.6.2019, p. 1
Þennan dag skulu skilyrði uppfyllt í ESB

Vinnslustig (pipeline stage)

COM numer COM(2018) 340
Dagsetning tillögu ESB
Dagsetning tillögu
Samþykktardagur i ESB

Ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar

Sendingardagur EFTA á drögum að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar til framkvæmdastjórnarinnar
Staðfestur gildistökudagur
Tilvísun í EES-viðbæti EEA Supplement No 17, 22.2.2024, p. 25
Tilvísun í stjórnartíðindi ESB OJ L, 2024/516, 22.2.2024