Reglugerð (ESB) 2020/1208 um umgjörð, framkvæmd og úttekt á bókhaldi Íslands yfir losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda. - 32020R1208

Commission Implementing Regulation (EU) 2020/1208 of 7 August 2020 on structure, format, submission processes and review of information reported by Member States pursuant to Regulation (EU) 2018/1999 of the European Parliament and of the Council and repealing Commission Implementing Regulation (EU) No 749/2014


iceland-flag
Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/1208 frá 7. ágúst 2020 um skipulag, snið, framlagningarferli og yfirferð á upplýsingum sem aðildarríkin láta í té samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1999 og um niðurfellingu á framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 749/2014
  • Tillaga sem gæti verið EES-tæk

  • Gerð í skoðun hjá EES-EFTA ríkjunum

  • Drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar í skoðun

  • Ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar samþykkt en hefur ekki öðlast gildi

  • Tekin upp í EES-samninginn og í gildi

  • Tekin upp í EES-samninginn en ekki lengur í gildi

Staða og svið tillögu/gerðar

Staða tillögu/gerðar ESB gerð sem hefur verið tekin upp í EES-samninginn og er í gildi
Svið (EES-samningur, bókun) 31 um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins
Ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar (JCD) 223/2021
Þennan dag skulu skilyrði uppfyllt á EES-svæðinu
Staðfestur gildistökudagur
Í gildi á EES-svæðinu

Almennar upplýsingar

Útdráttur

Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli reglugerðar (ESB) 2018/1999 (Governance Regulation) fjallar um umgjörð og framkvæmd bókhalds yfir losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda á Parísartímabilinu 2021-2030. Í henni er gert grein fyrir því hvernig aðildarríki Evrópusambandsins skulu halda bókhaldið og þeim leiðbeiningum sem skulu notaðar við útreikninga, hvenær úttektir fara fram og hvernig skal gera upp losun. Einnig eru settar fram kröfur varðandi landsbundin losunarbókhaldskerfi.
Mörgu í þessari reglugerð hefur Umhverfisstofnun þegar unnið eftir við gerð losunarbókhalds Íslands, en einnig mælir hún fyrir um ýmislegt nýtt. Helst má nefna að upplýsingar um sölu, kaup og millifærslur á losunarheimildum í skráningarkerfinu í tengslum við sveigjanleikaákvæði reglugerða (ESB) 2018/841 og 842 skulu færðar í bókhaldið og þörf er á að bæta umgjörð og skipulag landsbundinna losunarbókhaldskerfa hér á landi.

Nánari efnisumfjöllun

Almennt:
Reglugerð (ESB) 2020/1208, sem hér er til greiningar, inniheldur ítarlegar útskýringar og reglur um hvernig aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) skulu halda bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við regluverk ESB fyrir Parísartímabilið, þ.e. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1999 (e. Governance Regulation), reglugerð (ESB) 2018/842 (e. Effort Sharing Regulation - ESR) og reglugerð (ESB) 2018/841 (e. LULUCF Regulation). Reglugerð þessi, sem er framkvæmdarreglugerð sett á grundvelli reglugerðar (ESB) 2018/1999, fellir úr gildi framkvæmdarreglugerð (ESB) nr. 749/2014, sem var sett á grundvelli reglugerðar (ESB) nr. 525/2013.

Reglugerð (ESB) 2020/1208 inniheldur ítarleg ákvæði um skyldur varðandi upplýsingagjöf sem mælt er fyrir um í reglugerð (ESB) 2018/1999, en sú reglugerð nær bæði yfir upplýsingar um orkumál og loftslagsmál. Skv. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 voru eininugis þau ákvæði reglugerðar (ESB) 2018/1999 tekin upp í EES-samninginn sem varða loftslagsmál. Ekki hefur þó verið unnin ítarleg greining hjá Umhverfisstofnun hvað reglugerðina varðar.

Reglugerðir (ESB) nr. 525/2013 og nr. 749/2014 voru ekki teknar upp í EES-saminginn fyrir skuldbindingartímabil Kýótó-bókunarinnar en Ísland var hins vegar skuldbundið skv. 4. gr. tvíhliðasamnings milli Íslands og ESB til að vinna samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 525/2013 og þeim gerðum sem settar voru á grundvelli hennar. Var reglugerð (ESB) nr. 525/2013 innleidd að stærstum hluta með reglugerð nr. 520/2017 um gagnasöfnun og upplýsingagjöf stofnana vegna bókhalds Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 voru síðan tiltekin ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 749/2014 tekin upp í EES-samninginn, með þeirri aðlögun þó að ákvæðin ættu einungis við um EFTA-ríkin að því er varðar framkvæmd á reglugerð (ESB) 2018/842. Var þetta gert til að tryggja að EFTA-ríkin framfylgdu á réttan hátt tilteknum ákvæðum um skil á upplýsingum á grundvelli reglugerðar (ESB) 2018/842.

Í reglugerð þessari felast því að stærstum hluta reglur sem unnið hefur verið eftir áður í tengslum við bókhald Íslands yfir losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda þó þær hafi ekki að öllu leyti verið að finna í íslenskri löggjöf.

Í greiningu þessari verður farið yfir efnisatriði reglugerðar (ESB) 2020/2018 og sérstaklega vakin athygli á þeim breytingum og nýju reglum sem áhrif hafa á vinnslu losunarbókhalds Íslands. Verður vísað til ákvæða reglugerðar (ESB) nr. 749/2014 til samanburðar þar sem við á.

Kaflar I og II:
Í kafla I er að finna ákvæði um gildissvið og skilgreiningar. Kafli II, sbr. 4., 5. og 6. gr., inniheldur ákvæði um aðlögun ríkja, uppboð og fjárhagslegan og tæknilegan stuðning við þróunarlönd. Ákvæði kaflans vísa til ákvæða reglugerðar (ESB) 2018/1999 sem ekki voru tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 og verður því ekki fjallað nánar um kaflann í greiningu þessari.

Upplýsingar um bráðabirgðatölur, losunarbókhald og bókfærða losun:
Í kafla III, sbr. 7.–25. gr., eru reglur um upplýsingagjöf varðandi skil á bráðabirgðatölum (e. approximated greenhouse gas inventories), losunarbókhald (e. inventories) sem og bókfærða losun (e. accounted emissions).
• 7. gr. fjallar um að aðildarríki skuli skila bráðabirgðatölum fyrir alla geira losunarbókhaldsins, með skiptingu á milli losunar sem fellur undir reglugerð (ESB) 2018/842 (ESR) og losunar sem fellur undir tilskipun 2003/87/EB um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS). Einnig ber að lýsa helstu ástæðum breytinga á milli losunar áranna X-1 og X-2. Umhverfisstofnun hefur skilað bráðabirgðatölum árlega.
• 8. gr. inniheldur almennar reglur um hvernig skal skila losunarbókhaldi, bæði tölum og skýrslu. Eina breytingin sem gerð er hér m.v. reglugerð (ESB) nr. 749/2014 er sú að ekki verður lengur krafa um að skila upplýsingum úr skráningarkerfi fyrir losunarheimildir (e. the Union Registry) varðandi losunarheimildir á skuldbindingartímabilum Kýótó-bókunarinnar (svokallaðar SEF-skýrslur, e. Standard Electronic Format).
• Í 9.-19. gr. reglugerðarinnar eru reglur um þær viðbótarupplýsingar og gögn sem skulu fylgja losunarbókhaldinu og hvort upplýsingar eigi að koma fram í töluskrá og/eða í landsskýrslu (e. National Inventory Report), en reglur þessar eru að mestu leyti sambærilegar þeim í reglugerð (ESB) nr. 749/2014. Þær viðbótarupplýsingar sem hér um ræðir eru eftirfarandi:
– 9. gr. felur í sér upplýsingar um ástæður endurútreikninga á milli losunarbókhaldsgerðar á yfirstandandi ári (X) og árinu á undan (X-1) fyrir losun áranna 1990, 2005 og X-3. Hér er nýmæli að gera þurfi gera grein fyrir endurútreikningum fyrir losun árið 2005, til viðbótar við 1990 og X-3.
– 10. gr. felur í sér upplýsingar um stöðu á athugasemdum frá fyrri úttektum á vegum UNFCCC og ESB.
– 11. gr. felur í sér upplýsingar um aðferðafræði og losunarstuðla fyrir lykilflokka (e. key categories) í losunarbókhaldi ESB. Hér er bent á að framkvæmdastjórninni ber að senda aðildarríkjunum árlega skrá yfir þá aðferðafræði og losunarstuðla fyrir lykilflokka sem notaðir voru við skil losunarbókhalds árið á undan (sbr. „Part 1“ og „Part 2“ í viðauka IX).
– 12. gr. fjallar um óvissumat og heildstæðni (e. completeness).
– Skv. 13. gr. skal skila upplýsingum um vísa (e. indicators) og er um að ræða nýja kröfu hvað varðar Ísland. Útreikningar á viðkomandi vísum gætu krafist samstarfs á milli Umhverfisstofnunar, Orkustofnunar og/eða Hagstofu Íslands, en ekki er gert ráð fyrir að um umfangsmikið verkefni sé að ræða.
– 14. gr. felur í sér upplýsingar um vottaða losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir skv. tilskipun 2003/87/EB.
– 15. gr. felur í sér samanburð á losunartölum tiltekinna loftmengunarefna (NOx, NMVOC, CO og SO2) sem skilað er á grundvelli 3. mgr. 26. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1999 annars vegar og á grundvelli tilskipunar (ESB) 2016/2284 (þaktilskipunar loftmengunarefna) hins vegar. Vert er að nefna að unnið er að upptöku tilskipunar (ESB) 2016/2284 í EES-samninginn.
– 16. gr. felur í sér samanburð á losunartölum frá F-gösum og upplýsingum sem skilað er til ESB á grundvelli 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 517/2014 um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir. Umhverfisstofnun bendir á að reglugerð (ESB) nr. 517/2014 var innleidd í íslenska löggjöf með reglugerð nr. 1066/2019 með þeirri aðlögun að 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 517/2014 gildi ekki hér á landi, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 160/2019.
– 17. gr. felur í sér samanburð á losunartölum vegna eldsneytisnotkunar og upplýsingum sem skila skal á grundvelli reglugerðar (EB) nr. 1099/2008 um hagskýrslur um orkumál. Reglugerð (EB) nr. 1099/2008 var innleidd í íslenska löggjöf með reglugerð nr. 777/2016 um gildistöku og innleiðingu titekinna gerða Evrópusambandsins á sviði hagskýrslugerðar.
– 18. gr. felur í sér upplýsingar um breytingar á landsbundnum losunarbókhaldskerfum (e. national inventory systems) og/eða skráningarkerfinu sem orðið hafa frá skilum ársins á undan.
– 19. gr. felur í sér upplýsingar um losun sem fellur undir reglugerð (ESB) 2018/842 (ESR).
• 20.-24. gr. reglugerðarinnar eru nýjar en fjalla einnig um viðbótarupplýsingar sem fylgja skulu með losunarbókhaldinu. Samkvæmt ákvæðunum skal skila árlega tölulegum upplýsingum vegna uppgjörs (þ.e.a.s „accounting“) í tengslum við reglugerð (ESB) 2018/842 (ESR) og reglugerð (ESB) 2018/841 (LULUCF-R). Þær upplýsingar eiga að vera í samræmi við ákveðin sniðmát.
– 20. gr. fjallar um upplýsingar um loknar millifærslur skv. sveigjanleikaákvæðum 12. og 13. gr. reglugerðar (ESB) 2018/841 á ári X-1.
– 21. gr. fjallar um upplýsingar um loknar millifærslur skv. 5. gr. reglugerðar (ESB) 2018/842 á ári X-1, en í þeirri grein kemur fram hvaða sveigjanleiki er í boði fyrir ríki til að að standast skuldbindingar sínar skv. 4. gr. reglugerðar (ESB) 2018/842, þ.m.t. að fá lánaðar, geyma eða millifæra losunarheimildir á milli ríkja. Einnig er í boði fyrir aðildarríkin að skila sömu upplýsingum mánaðarlega á meðan uppgjöri stendur (eftir úttektir ársins 2027 fyrir tímabilið 2021-2025 og ársins 2032 fyrir tímabilið 2026-2030).
– 22. gr. felur í sér upplýsingar um áætlaða notkun sveiganleikaákvæða skv. 4. og 5. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 7. gr. reglugerðar (ESB) 2018/842.
– 23. gr. felur í sér upplýsingar um það hvernig tekjur af millifærslum skv. 6. mgr. 5. gr. reglugerðar (ESB) 2018/842, voru notaðar.
– 24. gr. fjallar um bókfærða losun og bindingu frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt skv. tiltekinni flokkun og aðgerðafræði sem notuð verður við uppgjör.
– Um nánari upplýsingar um framangreind ákvæði í reglugerðum (ESB) 2018/842 og 841 vísast til upplýsingablaða Umhverfisstofnunar um þær gerðir.
• 25. gr. reglugerðar þessarar kveður á um samstarf og samhæfingu á milli framkvæmdarstjórnarinnar og aðildarríkja við gerð losunarbókhalds ESB. Í greininni er sett fram ný krafa um að aðildarríki sem endurskila losunarbókhaldsgögnum til UNFCCC (e. inventory resubmission) skuli senda framkvæmdastjórninni yfirlit með helstu breytingum eða leiðréttingum sem gerðar voru, innan viku eftir endurskil.

Landsbundin losunarbókhaldskerfi:
Kafli IV., sbr. 26.-29. gr. fjallar um landsbundin losunarbókhaldskerfi (e. national inventory systems) og er nýr m.v. reglugerð (ESB) nr. 749/2014, þó að ákvæði um slík kerfi í samræmi við reglur UNFCCC sé í 5. gr. reglugerðar (ESB) nr. 525/2013. Með kaflanum eru settar skýrari og ítarlegri kröfur um hvernig eigi að koma á fót og starfrækja landsbundin losunarbókhaldskerfi, m.a. hvað varðar virkni losunarbókhaldskerfanna sem og skipulag, undirbúning og stjórnun losunarbókhaldsins (e. inventory planning, preparation and management).
• 26. gr. kveður m.a. á um að tryggja skuli fullnægjandi getu losunarbókhaldskerfisins m.t.t. stofnanaumgjarðar, lagaumgjarðar og verkferla, svo verkefni skv. 27.-29. gr. verði framkvæmd tímanlega. Einnig skal tryggja tæknilega hæfni starfsfólks.
• 27. gr. fjallar um skipulag við gerð losunarbókhalds, og eru gerðar kröfur um að skilgreina og skipta ábyrgðinni hvað varðar mismunandi þætti við vinnslu bókhaldsins, t.d. hvað varðar val á aðferðafræði, gagnasöfnun, útreikninga, gagnavistun og gæðaferla. Ennfremur er kveðið á um að aðildarríki skuli íhuga ferla fyrir formlega umfjöllun og samþykkt (e. official consideration and approval) losunarbókhaldsins áður en því er skilað, sbr. d-lið 1. mgr. 27. gr.
• 28. gr. fjallar um undirbúning fyrir vinnslu losunarbókhaldsins og inniheldur lista yfir mismunandi þætti sem ber að skipuleggja og halda utan um. Hér á landi er nú þegar starfað eftir þessum reglum að vissu leyti; en endurskoða og betrumbæta þarf gæðaferla, meðal annars m.t.t. samræmingar/samþættingar mismunandi stofnana, m.a. Umhverfisstofnunar, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar, sem og að koma í framkvæmd rýni á sérstökum geirum bókhaldsins af hálfu viðeigandi aðila sem ekki koma beint að vinnslu þess. Í því sambandi skal leggja sérstaka áherslu á lykilflokka og þá flokka þar sem aðferðafræði hefur breyst verulega frá skilum ársins á undan.
• 29. gr. fjallar um stjórnun losunarbókhaldsins en kveðið er á um að allar upplýsingar og gögn skuli geymd í skjalasafni, og séu aðgengileg úttektaraðilum eftir þörfum.

Ítarleg úttekt:
Kafli V, sbr. 30.-34. gr., fjallar um málsmeðferð og tímaáætlun fyrir ítarlega úttekt framkvæmdastjórnarinnar (e. comprehensive review) sem muna eiga sér stað árið 2027 fyrir losun árin 2021-2025 og árið 2032 fyrir losun árin 2026-2030. Helstu breytingar sem felast í kafla V í reglugerð þessari m.v. reglugerð (ESB) nr. 749/2014 eru eftirfarandi:
• Ítarleg úttekt mun einnig ná yfir losun og bindingu frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt. Um er að ræða mikilvæga breytingu þar sem úttekt skv. 32. gr. reglugerðar (ESB) nr. 749/2014 náði einungis yfir losun á beinni ábyrgð stjórnvalda (e. effort sharing).
• Tímalínan fyrir úttektina, eins og hún kemur fram í viðauka XXII. reglugerðar þessarar, er aðeins breytt frá því áður. Framkvæmdastjórnin mun senda skýrslur með endanlegum niðurstöðum úr ítarlegri úttekt í lok ágúst 2027 og 2032, sbr. 32. og 34. gr.
Ákvæði 31. gr. reglugerðarinnar, sem fjallar um hvenær og hvernig tæknilegar leiðréttingar (e. technical corrections) eru framkvæmdar og viðmiðunarmörk marktektar (e. threshold of significance), og 33. gr. um samvinnu á milli aðildarríkja og úttektaraðila, eru óbreytt m.v. reglugerð (ESB) nr. 749/2014.

Upplýsingar um stefnur, aðgerðir og framreikninga:
Kafli VI í reglugerð þessari, sbr. 35.-38. gr., fjallar um kröfur vegna skila á gögnum og skýrslu varðandi stefnur, aðgerðir og framreikninga sem ber að skila annað hvert ár skv. 18. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1999.
• 35. gr. reglugerðar þessarar er nýmæli og kveður á um að við skilin skuli nota rafræna gagnagátt (e. e-platform) framkvæmdastjórnarinnar.
• 36. gr. kveður á um að upplýsingum varðandi landsbundið kerfi fyrir stefnur, aðgerðir og framreikninga (e. national systems for policies and measures and projections) sé skilað á töfluformi skv. viðauka XXIII. Greinin er uppfærð m.v. samsvarandi grein í reglugerð (ESB) nr. 749/2014, sbr. 20. gr. hennar, en bæst hafa við kröfur um frekari upplýsingar um samspil á milli landsbundins losunarbókhaldskerfis fyrir stefnur, aðgerðir og framreikninga annars vegar og landsbundins losunarbókhaldskerfis fyrir sögulega losun hins vegar, sem og um upplýsingar um formlegt samráð og samþykki á landsbundna kerfinu fyrir stefnur, aðgerðir og framreikninga. Einnig hafa bæst við kröfur um upplýsingar um viðeigandi stofnana- eða kerfisskipulag vegna skuldbindinga ESB gagnvart UNFCCC (e. domestic implementation of the EU‘s nationally determined contribution) og um lýsingu á samráðsferli við hagaðila.
• 37. gr. kveður á um að tölulegum upplýsingum og skýrslu sé skilað um framreikninga og stefnur. Bætt hefur verið við tilmælum um að skila skuli fyrirfram-mati („ex ante“) og eftir-á-mati („ex post) fyrir losun og bindingu frá LULUCF, ef slíkt mat er fyrir hendi, sbr. töflu 2 í viðauka XXIV., til viðbótar við mat á losun sem fellur undir ETS-kerfið og sameiginlega ábyrgð stjórnvalda (ESR). Einnig er beðið um þær upplýsingar sem fáanlegar eru varðandi hreinan ávinning (e. absolute benefit) og ávinning sem ekki tengist mildun gróðurhúsalofttegunda (e. non-GHG mitigation benefits). Einnig er sett fram ný krafa um að upplýsa skuli um áætlaðar viðbótarstefnur og -aðgerðir (e. planned additional policies and measures). Vert er að nefna að 37. gr. inniheldur einnig ákvæði um skil á upplýsingum varðandi uppfærslur á langtímaáætlunum (e. long-term strategies), sbr. a.-lið 2. mgr., sem ber að skila skv. 15. gr reglugerðar (ESB) 2018/1999, en sú grein var ekki tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019.
• 38. gr. reglugerðar þessarar kveður á um að tölulegum upplýsingum og skýrslu sé skilað um framreikninga varðandi losun og bindingu. Helsta breyting ákvæðisins m.v. reglugerð (ESB) nr. 749/2014 er að gera skal sérstakan greinarmun á losun sem fellur undir reglugerð (ESB) 2018/842, losun sem fellur undir tilskipun 2003/87/EB og losun og bindingu sem fellur undir reglugerð (ESB) 2018/841. Þá bætist tafla 1b við í viðauka XXV. við reglugerð þessa sem krefst þess að framreiknuð losun og binding í LULUCF sé jafn ítarleg og fyrir sögulega losunarbókhaldið, sbr. töflu 5a, sem skilgreind er í reglugerð (ESB) 2018/841. Einnig er tafla 5b í sama viðauka ný, en hún tekur saman heildarlosun og bindingu LULUCF yfir fimm ára tímabilin 2021-2025 annars vegar og 2026-2030 hins vegar. Að auki bætast við tvær töflur, tafla 6 og tafla 7, þar sem taka þarf saman upplýsingar um næmisgreiningu (e. sensitivity analysis) og hvernig það var framkvæmt. 38. gr. kveður einnig á um að notast skuli við samræmd gildi fyrir lykilbreytur fyrir framreikninga, a.m.k fyrir olíu-, gas- og kolainnflutningsverð, sem og kolefnisverð sem fellur undir ETS-kerfið. Framkvæmdastjórnin gefur út lista sem inniheldur fyrrgreind gildi fyrir lykilbreytur.

Gildistaka:
Reglugerð þessi tekur gildi 1. janúar 2021.

Staða innan stjórnsýslunnar

Stofnun hefur lokið yfirferð
Þörf á aðlögun í ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar Tæknilegri aðlögun, 2
Fagráðuneyti hefur lokið vinnu við upplýsingablað og samþykkir drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar
Utanríkisráðuneyti hefur veitt samþykki fyrir því að drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar séu send til ESB

Innleiðing

Innleiðing Reglugerð - breyting eða ný
Tilgreinið hvaða lög eða reglugerð þarf að setja eða breyta Almennt
Á öðru skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar var losunarbókhald Íslands unnið í samræmi við tvíhliðasamning Íslands og ESB. Á grundvelli Parísarsáttmálans hafa Ísland og Noregur hins vegar gert sameiginlegt samkomulag við ESB um skuldbindingar ríkjanna hvors um sig á tímabilinu 2030-2040, og ákveðið hefur verið að taka þónokkrar gerðir ESB upp í EES-samninginn í því sambandi og því ljóst að nauðsynlegt verður að innleiða reglur um losunarbókhaldið, s.s. um vinnslu, úttekt og skil.

Athygli skal vakin á því að sú reglugerð sem liggur til grundvallar þeirri reglugerð sem hér er til greiningar, þ.e. reglugerð (ESB) 2018/1999 (Governance Regulation) er skv. upplýsingum í gagnagrunni EFTA enn til skoðunar hjá sérfræðingum EES/EFTA hvað varðar upptöku í EES-samninginn. Þó voru þau ákvæði hennar sem fjalla um losunarbókhaldið tekin upp í samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 en önnur ákvæði reglugerðarinnar fjalla um atriði tengd orku og eru enn til skoðunar. Því hefur ekki verið gerð nákvæm greining á áhrifum Governance Regulation eða því hvernig hún skuli innleidd í íslenskan rétt. Eftirfarandi tillögur að reglusetningu eru settar fram með fyrirvara um framangreint.

Þær reglur sem koma fram í Governance Regulation og reglugerð þeirri sem hér er til greiningar fjalla um skyldur ríkisins til að halda bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda, hvernig það skal undirbúið og framkvæmt og á hvaða formi, skil á bókhaldi og skýrslum til ESB og UNFCCC og um landsbundin losunarbókhaldskerfi. Æskilegast væri því að innleiða reglugerðirnar með tilvísunaraðferð í nýrri reglugerð, sbr. a-lið 7. gr. EES-samningsins. Er ekki talin þörf á lagabreytingum í því tilliti en skylda Umhverfisstofnunar til að halda bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar kemur fram í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál. Þó er að mati Umhverfisstofnunar nauðsynlegt að skýra ákvæði 3. mgr. 6. gr. laganna hvað varðar heimild ráðherra til setningu reglugerðar um framkvæmd losunarbókhalds Íslands, sjá nánar í eftirfarandi umfjöllun.
, Setning reglugerðar um framkvæmd bókhalds Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti:
Til innleiðingar á reglugerð þessari er að mati Umhverfisstofnunar nauðsynlegt að sett verði ný reglugerð sem fjallar um framkvæmd losunarbókhaldsins, m.a. uppbyggingu þess, form, skil til ESB og UNFCCC og úttektir á bókhaldinu, sem og um landsbundin losunarbókhaldskerfi.

Æskilegt væri að reglugerð (ESB) 2020/1044 sem einnig er sett á grundvelli Governance Regulation og fjallar um gildi fyrir hnatthlýnunarmátt sem notuð eru við vinnslu losunarbókhaldsins, leiðbeiningar um gerð losunarbókhalds og um losunarbókhaldskerfi ESB, og Umhverfisstofnun hefur nýlega lokið við að greina, verði innleidd í sömu reglugerð.
, Breytingar á reglugerð nr. 520/2017 um gagnasöfnun og upplýsingagjöf stofnana vegna bókhalds Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti:
Hvað varðar skyldu stofnana og annarra aðila til að skila gögnum til Umhverfisstofnunar í tengslum við losunarbókhaldið er nauðsynlegt er að gera breytingar á reglugerð nr. 520/2017, sem sett var á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál, en m.a. þarf að uppfæra reglugerðina m.t.t. þess að Kýótó-tímabilinu verður lokið og Parísartímabilið hefst 1. janúar nk.

Ástæða þess Umhverfisstofnun leggur ekki til að reglugerð (ESB) 2020/1208, sem hér er til greiningar, verði innleidd með breytingu á reglugerð nr. 520/2017 er sú að stofnunin telur að aðgreining þessara tveggja þátta, þ.e. annars vegar upplýsingagjafar annarra stofnana til Umhverfisstofnunar og hins vegar sjálfrar framkvæmdar losunarbókhaldsins, yrði til einföldunar og aukins skýrleika. Umhverfisstofnun leggur frekar til nauðsynlegar breytingar á reglugerð nr. 520/2017 í tengslum við ákvæði um Kýótó-tímabilið, líkt og segir hér að framan, en að gildissvið hennar verði jafnframt víkkað út svo hún nái bæði yfir upplýsingagjöf annarra stofnana vegna bókhalds yfir losun gróðurhúsalofttegunda annars vegar og önnur loftmengunarefni hins vegar. Þau gögn sem stofnanir og aðrir aðilar þurfa að skila til Umhverfisstofnunar vegna vinnslu losunarbókhaldsins eru almennt á formi grunngagna (e. activity data) sem stofnunin notar til að reikna út losun hvers loftmengunarefnis fyrir sig, bæði gróðurhúsalofttegundir og önnur loftmengunarefni. Því er ljóst að mikil samlegð er á milli upplýsingagjafar annarra stofnana hvað varðar gróðurhúsalofttegundir annars vegar og önnur loftmengunarefni hins vegar. Til hliðar við reglugerð nr. 520/2017 yrði svo sett ný reglugerð um framkvæmd losunarbókhaldsins, sbr. umfjöllunina að framan.

Umhverfisstofnun leggur til að nánari umræður eigi sér stað milli stofnunarinnar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á næstunni í tengslum við það regluverk sem nauðsynlegt er að innleiða á næstu misserum, bæði hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda og annarra loftmengunarefna.
, Breytingar á lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál:
Að mati Umhverfisstofnunar er nauðsynlegt að gera breytingar á reglugerðarákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál til setningar nýrrar reglugerðar um losunarbókhald Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Taka þarf af allan vafa um það að á grundvelli ákvæðisins verða ekki eingöngu sett reglugerðarákvæði um upplýsingagjöf annarra stofnana til Umhverfisstofnunar skv. 2. mgr. 6. gr. laganna heldur einnig ákvæði um hlutverk og skyldur Umhverfisstofnunar í tengslum við bókhaldið, framkvæmd þess, þ. á m. um landsbundin losunarbókhaldskerfi, og skýrslugjöf Íslands í þessu sambandi.
Leggur Umhverfisstofnun því til að 3. mgr. 6. gr. verði breytt og hljóði svo:
„Ráðherra skal setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um losunarbókhald og framkvæmd þess skv. 1. mgr. og upplýsingagjöf skv. 2. mgr., þar á meðal um skýrslugjöf og hvaða aðilum beri skylda til að taka saman gögn varðandi losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda og skila til Umhverfisstofnunar.“
Til viðbótar við ofangreint mætti skoða hvort lögfesta ætti ákvæði um landsbundin losunarbókhaldskerfi og starfrækslu þeirra, eða hvort setning reglugerðarákvæða sé fullnægjandi í því sambandi, og gæta þá að því að reglugerðarheimild 3. mgr. 6. gr. laga nr. 70/2012 nái yfir þær reglur.
Staða innleiðingarvinnu Innleiðing ekki hafin

Samráð

Hvaða hagsmunaaðilar Landgræðslan| Skógræktin| Hagstofa Íslands| Orkustofnun
Niðurstöður samráðs Umhverfisstofnun hafði við greiningu reglugerðarinnar samráð við Skógræktina og Landgræðsluna í formi tölvupóstsamskipta varðandi hlutverk þeirra samkvæmt reglugerðinni m.t.t. upplýsinga um landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt (LULUCF). Þær upplýsingar sem Umhverfisstofnun hefur fengið frá framangreindum aðilum á þessu stigi eru eftirfarandi:
– Verkefni skv. 24. gr. reglugerðarinnar verða hjá Skógræktinni og Landgræðslunni.
– Þar sem Landgræðslan og Skógræktin hafa ákveðnu hlutverki að gegna hvað varðar losunarbókhaldið er þátttaka þeirra nauðsynleg hvað varðar skipulagningu á fyrirkomulagi og samráði vegna starfrækslu landsbundinna losunarbókhaldskerfa og þeirra úrbóta em gera þarf.
– Ákvæði 26.-29. gr. kalla á meiri samræmingu milli þeirra aðila sem koma að bókhaldi vegna LULUCF.
– 37. og 38. gr. fela í sér töluverða aukavinna hjá Landgræðslunni og Skógræktinni.
– Ljóst er að þessir aðilar munu ekki ná að skila tölum varðandi framreikninga tímanlega fyrir næstu skil, árið 2021. Umhverfisstofnun bendir á að skoða þyrfti hvort nauðsynlegt sé að óska eftir aðlögun vegna þessa við upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn, þess efnis að Ísland fái undanþágu og viðkomandi hluta bókhaldsins verði skilað í fyrsta skipti árið 2022.
Að mati Umhverfisstofnunar er þörf á samráði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við framangreinda aðila m.t.t. hlutverks þeirra og kostnaðarmats þar um.
Aðrir hagsmunaaðilar sem Umhverfisstofnun telur líklegt að gætu haft hlutverki að gegna í tengslum við reglugerð þessa er að finna undir „Hvaða hagsmunaaðilar“ en Umhverfisstofnun hefur þó ekki haft samráð við þá aðila á þessu stigi.

Áhrif

Nánari útskýring á kostnaði, þ.á.m. á hvern hann fellur Með reglugerð (ESB) 2020/1208 eru að ákveðnu leyti lagðar auknar kröfur á ríkin hvað varðar losunarbókhaldið, til að tryggja áreiðanleika þess og gæði gagna. Helstu breytingarnar hvað Ísland varðar snúa að upplýsingum sem skila ber í tengslum við reglugerð (ESB) 2018/841 og reglugerð (ESB) 2018/842 auk ákvæða um uppsetningu og starfrækslu landsbundinna losunarbókhaldskerfa. Með landsbundnum losunarbókhaldskerfum er annars vegar átt við kerfi fyrir sögulega losun og hins vegar fyrir framreiknaða losun, en þessi kerfi eru í raun og veru nátengd. Þó að slík kerfi sé vissulega fyrir hendi hér á landi nú þegar, upp að ákveðnu marki, þyrfti miðað við þær kröfur sem gerðar eru í reglugerð þessari að formfesta og skýra ýmis atriði.
Líkt og fram kemur í efnisumfjöllun í greiningu þessari um kafla IV. í reglugerðinni lúta þær kröfur sem gerðar eru varðandi landsbundin losunarbókhaldskerfi aðallega að því að tryggja skal að slík kerfi taki til þeirra stofnana og aðila sem bera ábyrgð á vinnslu bókhaldsins og að áætlun þess, undirbúningur og stjórnun fari fram tímanlega og með fullnægjandi hætti. M.t.t. þessa mun að mati Umhverfisstofnunar felast aukavinna í framangreindu fyrir starfsfólk bókhaldsins við að koma betra skipulagi á losunarbókhaldskerfin, formfesta utanumhald þess og skipuleggja samráð þeirra aðila sem að kerfinunum koma og fleira í tengslum við þær kröfur sem reglugerðin gerir, a.m.k. í tiltekinn tíma. Einnig mun í framhaldinu fylgja aukavinna m.a. vegna stjórnunar bókhaldsins og undirbúnings þess, gæðaferla og samráðs við aðrar stofnanir og hagaðila.

Við nánara skipulag slíkra losunarbókhaldskerfa leggur Umhverfisstofnun til að skoðaður sé möguleiki á að setja á fót stýrinefnd um landsbundin losunarbókhaldskerfi. Nefndin yrði samansett af fulltrúum Umhverfisstofnunar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar, ásamt helstum hagaðilum/gagnaveitendum, t.d. Orkustofnun, Hagstofu Íslands, Samgöngustofu o.fl. Slík nefnd myndi hittast til að mynda tvisvar á ári og helsta hlutverk hennar væri að rýna og sammþykkja úrbætur og losunartölur sem skilað er til ESA/UNFCCC, sem og að rýna ákveðna kafla bókhaldsins. Nánari umræður um hvernig fyrirkomulagi landsbundinna losunarbókhaldskerfa verður háttað þyrftu að eiga sér stað milli Umhverfisstofnunar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og framangreindra aðila eftir því sem við á.

Á Parísartímabilinu verða aukin tengsl milli losunarbókhaldsins og skráningarkerfis með losunarheimildir skv. reglugerð (ESB) 2019/1122 miðað við áður og því er að mati stofnunarinnar mikilvægt að starfsfólk losunarbókhaldsins efli þekkingu innan teymisins á skráningarkerfinu.

Helstu breytingar reglugerðarinnar varðandi þær upplýsingar sem skal skila og hafa að mati Umhverfisstofnunar viðbótarvinnu í för með sér varða tölur vegna notkunar eða áætlaðrar notkunar sveigjanleikaákvæða samkvæmt reglugerðum (ESB) 2018/842 og 2018/841, sbr. 20.-24. gr. reglugerðarinnar. Er hér m.a. um að ræða upplýsingar um loknar millifærslur vegna þess að losunarheimildir hafa verið fengnar að láni, geymdar eða millifærðar á önnur ríki, sem og upplýsingar um það hvernig tekjur af millifærslum voru notaðar. Einnig er ný krafa um að skila tölulegum upplýsingum um vísa (e. indicators), sem mun sennilega krefjast samstarfs við aðrar stofnanir, svo sem Orkustofnun og/eða Hagstofu Íslands. Mun framangreint fela í sér viðbótarvinnu við vinnslu losunarbókhaldsins á Parísartímabilinu frá því sem áður var.

Auk framangreinds má nefna að reglugerðin setur fram ýmsar kröfur hvað varðar skil á upplýsingum sem ekki ber skylda til að skila nema slík gögn séu fyrir hendi eða ef æskilegt þykir að ákveðnum gögnum verði skilað. Að áliti Umhverfisstofnunar væri til bóta að Ísland myndi stefna að því að skila slíkum viðbótarupplýsingum á næstu árum til að auka gæði losunarbókhaldsins. Slíkt myndi, auk vandaðs skipulags við uppsetningu landsbundinna losunarbókhaldskerfa, minnka líkurnar á aukavinnu starfsfólks vegna athugasemda og krafna um úrbætur af hálfu úttektaraðila og auka þannig skilvirkni losunarbókhaldsins.

Í ljósi alls framangreinds telur Umhverfisstofnun þörf á 6 mannmánuðum til viðbótar hjá stofnuninni vegna innleiðingar og framkvæmdar á reglugerð þessari, sem samsvarar 6,8 milljónum á ári (á verðlagi 2020). Að mati stofnunarinnar er um að ræða verkefni sem mun þurfa að sinna til frambúðar. Framangreint kostnaðarmat er gert með fyrirvara um þær breytingar sem komið geta til á umfangi eða eðli þess hlutverks sem fylgir uppsetningu og starfrækslu landsbundinna losunarbókhaldskerfa miðað við það skipulag sem sett verður upp í samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
Áætlaður kostnaður hins opinbera Aukakostnaður
Mat á áhrifum og sérstökum hagsmunum Íslands Ljóst er að Skógræktin og Landgræðslan munu ekki ná að skila tölum varðandi framreikninga fyrir LULUCF tímanlega fyrir næstu skil, árið 2021. Umhverfisstofnun bendir á að skoða þyrfti hvort nauðsynlegt sé að óska eftir aðlögun vegna þessa við upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn, þess efnis að Ísland fái undanþágu og viðkomandi hluta bókhaldsins verði skilað í fyrsta skipti árið 2022.

Ábyrgðaraðilar

Ábyrgt ráðuneyti Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
Ábyrg stofnun Umhverfisstofnun

Samþykktar gerðir birtar í Stjórnartíðindum ESB

CELEX-númer 32020R1208
Samþykkt tilvísun í Stjórnartíðindi ESB OJ L 278, 26.8.2020, p. 1
Þennan dag skulu skilyrði uppfyllt í ESB

Vinnslustig (pipeline stage)

Dagsetning tillögu ESB
C/D numer D067900/01
Dagsetning tillögu
Samþykktardagur i ESB

Ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar

Sendingardagur EFTA á drögum að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar til framkvæmdastjórnarinnar
Staðfestur gildistökudagur
Tilvísun í EES-viðbæti EEA Supplement No 13, 8.2.2024, p. 63
Tilvísun í stjórnartíðindi ESB OJ L, 2024/274, 8.2.2024